Nikolaj Jacobsen þjálfari heimsmeistara Dana í handknattleik karla hefur neyðst til þess að gera tvær breytingar á leikmannahópi sínum fyrir leikinn við Argentínu í þriðju umferð handknattleikskeppni Ólympíuleikanna á morgun. Það alvarlegasta er að báðir þeir meiddu eru línumenn fyrir utan að vera afbragðs varnarmenn.
Magnus Saugstrup og Simon Hald meiddust báðir í leiknum við Egypta í gær. Strax var ljóst að meiðsli Hald voru alvarleg. Hinsvegar stóðu vonir til þess að Saugstrup gæti haldið áfram. Annað er komið á daginn. Jacobsen segist vonast til þess að Saugstrup geti tekið þátt í leikjum síðar í handknattleikskeppninni. Vonlítið er að Hald snúi til baka á leikunum.
Í stað þeirra hefur Jacobsen kallað inn Lukas Jørgensen og Lasse Andersson. Sá fyrrnefndi er línumaður en Andersson er skytta.
Jacobsen segir slæmt að hafa aðeins einn línumann, ekki síst ef hvorugur þeirra meiddu getur snúið til baka inn á leikvöllinn á Ólympíuleikunum.
Fleiri á sama bát
Jacobsen er ekki sá eini sem er í vanda með leikmannahóp sinn. Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalandi hefur engan eiginlegan hægri hornamann í sínum hóp eftir að Tim Hornke meiddist á fyrstu mínútu upphafsleiks Þjóðverja á Ólympíuleiknum. Stórskyttan Kai Häfner hljóp að hluta til skarðið í leiknum gegn Japan í gær.
Leikjadagskrá ÓL: Karlar – Konur.