- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Þórir segir leikjadagskrá átta liða úrslit ósanngjarna

Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins veltir stöðunni fyrir sér af yfirvegun. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik kvenna segir niðurröðun leikjanna í átta liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í kvennaflokki vera með miklum ólíkindum. Fyrir vikið sé mjög ólíkur hvíldartími sem liðin fá á milli leikja átta liða úrslita og undanúrslita. Það er að mati Þóris ósanngjarnt.

Noregur og Brasilía eigast við seint annað kvöld í átta liða úrslitum, klukkan 19.30 að íslenskum tíma, 21.30 í Frakklandi. Þá verða liðnir 12 tíma frá því að Danmörk og Holland hófu viðureign sína en sigurliðin úr þessum tveimur rimmum mætast í undanúrslitum á föstudaginn. Danir og Hollendingar hefja leik klukkan 7.30 að íslenskum tíma í fyrramálið, 9.30 að staðartíma.

Eftir að viðureign Danmerkur og Hollands lýkur taka við viðureign Frakklands og Þýskalands annars vegar og Ungverjalands og Svíþjóðar hinsvegar en sigurliðin þar eigast við í hinni rimmu undanúrslita.

Furðar sig á skipulaginu

Þórir furðar sig á að ekki sé hægt að raða leikjunum þannig niður að liðin fái jafnari tíma og undirbúnings á milli leikjanna. Til dæmis með því að Noregur/Brasilía og Danmörk/Holland fari fram fyrri hluta dags og hinar tvær viðureigninar síðar um daginn. Liðin sem komast áfram í undanúrslit úr fyrri viðureign átta liða úrslita eigi síðan fyrri viðureign í undanúrslitum á föstudaginn.

Engin viðbrögð

„Við höfum óskað eftir skýringum hvernig á þessu stendur en ekki fengið svar, enn sem komið er,“ segir Þórir við Verdens Gang. Leikjadagskráin er á ábyrgð Alþjóða handknattleikssambandsins.

Norska landsliðið kom til Lille í gær þar sem endasprettur handknattleikskeppni Ólympíuleikanna fer fram.

Sjá einnig: ÓL: Farið til Lille – leikir átta liða úrslita og tímasetningar

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -