- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM18: Sæti í 8-liða úrslitum tryggði þremur liðum farseðil á stórmót

Magnús Ingi Stefánsson markvarðaþjálfari og Heimir Ríkarðsson annar þjálfari U18 ára landsliðs karla. Bernhard Kristján Owusu Darkoh leikmaður U18 ára landsliðsins t.h. Ljósmynd/MKJ
- Auglýsing -

„Við ætlum að ljúka riðlakeppninni af sama krafti og hefur verið í okkur til þessa,“ segir Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is. U18 ára landsliðið tryggði sér í gær sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Svartfjallalandi þótt ein umferð sé eftir að riðlakeppninni.

Um leið og U18 ára landsliðið tryggði sér sæti 8-liða úrslitum í gær innsiglaði það U19 ára landsliðinu keppnisrétt á HM að ári liðnu og einnig þátttökurétt á EM20 ára landsliða eftir tvö ár. Ekki nóg með það heldur tryggði það einnig Íslandi sæti í lokakeppni EM 18 ára landsliða eftir tvö ár. Piltarnir í 16 ára landsliðinu (fæddir 2008) geta því farið að búa sig undir EM 18 ára að tveimur árum liðnum.

Frídagur er á mótinu í dag áður en lokaumferðin hefst á morgun. Þá leikur íslenska liðið við svartfellska landsliðið sem tapaði fyrir Ítalíu í fyrstu umferð og mátti teljast lánsamt að krækja í jafntefli við Færeyinga í gær. Heimir segir að gangi allt að óskum á morgun eigi íslenska liðið að vinna Svartfellinga.

Færeyingar voru óheppnir

„Færeyingar voru óheppnir að vinna ekki Svartfellinga. Færeysku piltarnir fóru mjög illa með mörg opin færi. Við eigum að vinna, það er ekkert annað í boði,“ segir Heimir ennfremur. Þess má geta að íslenska liðið vann það færeyska með níu marka mun í fyrradag, 32:23.

Milliriðlakeppnin hefst á mánudaginn eftir frí á sunnudaginn. Með íslenska liðinu í riðli átta liða úrslitum verða sigurliðin úr D og E-riðli auk þess liðs sem nær bestum árangri af þeim sem hafnar í öðru sæti í A, B eða C-riðli.

Í hinum milliriðli 8-liða úrslita verða sigurliðin úr A, B og C-riðli auk besta liðsins sem verður í öðru sæti í D, E og F-riðli.

„Við fáum hörkuleiki í milliriðlakeppninni. Það er alveg ljóst þótt ekki sé hægt að slá ennþá föstu nákvæmlega hvaða lið það verða,“ sagði Heimir.

Allt er í fínu standi hjá íslenska liðinu. Ekkert er um alvarleg meiðsli. Það er helst að hitinn sé mönnum til ama en dag hvern er lofthitinn nærri 40 gráður á celsíus í Podgorica.

„Almenningur flýr inn í verslunarmiðstöðvar og veitingastaði þar sem almennileg lofkæling er,” segir Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -