Tinna Laxdal skrifar:
Valur sigraði Hauka í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna á Hlíðarenda í dag, 31:23. Lovísa Thompson var atkvæðamest hjá Valskonum með 9 mörk og Sara Oden gerði 8 mörk fyrir Haukakonur.
Saga Sif Gísladóttir markvörður Vals sem kom frá Haukum fyrir tímabilið varði 13 skot í leiknum eða 37% skota. Annika Fríðheim Petersen frá Færeyjum, nýliði í Haukaliðinu, stóð vaktina í marki Hauka í dag og varði 11 skot eða 29% skotanna sem hún fékk á sig.
Arna Sif Pálsdóttir línumaður Vals var ánægð með leik liðsins í dag þrátt fyrir smá byrjenda brag. Hún skoraði 3 mörk í leiknum og varði nokkra bolta í miðju varnarinnar hjá Val. Hún segir Valsstelpur aldrei hafa misst dampinn og var ánægð með liðsheildina í dag. Hún telur að fyrir næsta leik, sem er á móti Fram, þurfi þær að halda einbeitingu lengur og vanda sig meira í sókninni til að fækka tæknimistökum. Hún er ánægð að fá erfiðan leik strax í næstu viku svo þær viti hvar þær standi.
Arna telur það jákvætt að liðinu hafi verið spáð 3. sætinu í vetur, þær losni við óþarfa pressu sem skapist af því að vera spáð toppsætinu.
Mikið æft utandyra
Þórey Anna Ásgeirsdóttir er ánægð með að vera komin á Hlíðarenda, en þetta var hennar fyrsti leikur með Val eftir að hafa leikið með FH, Gróttu og síðast Stjörnunni. Hún er mjög glöð að vera komin inn á völlinn eftir langa handboltapásu vegna Covid-19. Hún segir þetta undirbúningstímabil hafa verið frábrugðið öðrum undirbúningstímabilum og að þær hefðu æft mikið utandyra. Eftir miklar lyftingar og hlaup hafi það verið kærkomið að fá loksins að spila smá handbolta innanhúss á ný.
Þórey segir Valsliðið spennt að fá Fram í heimsókn strax í næstu umferð og munu þær nýta vikuna vel og æfa vel fyrir þann leik. Þórey var ánægð með vörnina í dag og var aðaláherslan þeirra að ná að stoppa Söru Oden sem hún telur vera eina af sterkustu skyttum deildarinnar.
Of mörg klaufamistök
Berta Rut Harðardóttir hægri skytta Haukastúlkna var kát eftir leikinn þrátt fyrir tapið og þá aðallega ánægð með að fá loksins að byrja aftur að spila handbolta eftir langt hlé. Bertu fannst liðið gera of mikið af klaufamistökum í fyrri hálfleik en segir aftur á móti að þær sé með sterkt lið. Þær hafi sýnt það með leik sínum í seinni hálfleik að þær séu séu færar um að standa í öllum liðum í deildarinnar.
Haukastúlkur fengu nokkra nýja leikmenn fyrir tímabilið og segir Berta að þær smellpassi í leikmannahópinn.
Það verður Hafnarfjarðarslagur í næsta leik og er það fyrsta skiptið sem Berta mætir FH í efstu deild. Hún hefur séð þá marga, Hafnarfjarðarslagina, hjá strákunum og er spennt að fá loksins að spila þann leik sjálf.
Haukastúlkum er spáð næstneðsta, eða 7. sætinu, í deildinni í vetur en Berta segist ekki taka mikið mark á spánum, þegar uppi er staðið þá snýst þetta allt um hvað gerist inni á vellinum.