ÍBV og FH skildu jöfn í hörkuleik í Vestmannaeyjum í kvöld, 31:31, í fyrri viðureign sinni í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik. FH-ingar jöfnuðu metin, 28:28, þegar um sex mínútur voru til leiksloka. Þá tóku við æsilegar lokamínútur þar sem vart mátti á milli liðanna að sjá. Ágúst Birgisson gat tryggt ÍBV sigur fáeinum sekúndum fyrir leikslok en Petar Jokanovic varði skot hans.
ÍBV var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:14.
Síðari leikur liðanna verður í Kaplakrika á fimmtudagskvöldið og ljóst að eftir úrslitin í Eyjum verður um hreinan úrslitaleik að ræða. Til stendur að flautað verði til leiks klukkan 18 á fimmtudaginn í Kaplakrika. Samanlögð úrslit tveggja leikja ráða hvort liðanna fer áfram. Verði þau jöfn þá fer það áfram sem skorar fleiri mörk á útivelli.
FH skoraði fyrsta mark leiksins en ÍBV svaraði með þremur í röð og var með yfirhöndina allt þar til snemma í síðari hálfleik að FH-liðið jafnaði 18:18. Forskot ÍBV rokkaði frá einu og upp í þrjú mörk.
Leikmenn FH sóttu í sig veðrið er kom fram á síðustu mínútu leiksins. Einar Rafn Eiðsson, sem reyndist Eyjamönnum óþægur ljár í þúfu í kvöld, jafnaði metin , 28:28. Eftir það jöfnuðu leikmenn jafnharðan og ÍBV-liðið komst marki yfir.
Leikmenn ÍBV töpuðu boltanum þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ekkert að tvínóna í þeirri stöðu og óskaði eftir leikhléi þegar um 20 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Upp úr hléinu fékk Ágúst opið færi en Jokanovic markvörður ÍBV varði. FH-liðið fékk aukakast þegar leiktíminn var á enda runninn en skot Egils Magnússonar hafnaði í varnarvegg ÍBV-liðsins. Niðurstaðan þar með jafntefli.
Mikil spenna var á lokamínútum. Heimamenn voru vel studdir af áhorfendum en FH-inga létu það sem minnst á sig fá.
Mörk ÍBV: Hákon Daði Styrmisson 9/5, Fannar Þór Friðgeirsson 5, Kári Kristján Kristjánsson 4, Dagur Arnarsson 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Gabríels Martinez Róbertsson 2, Theodór Sigurbjörnsson 2, Arnór Viðarsson 1, Sæþór Páll Jónsson 1.
Varin skot: Björn Viðar Björnsson 5, 24% – Petar Jokanovic 1, 6%.
Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 9/5, Egill Magnússon 6, Ágúst Birgisson 4, Arnar Freyr Ársælsson 4, Birgir Már Birgisson 3, Ásbjörn Friðriksson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Phil Döhler 7, 30% – Birkir Fannar Bragason 2, 12%.
Tölfræði er fengin hjá vísir.is.