- Auglýsing -
- Vilborg Pétursdóttir skoraði þrjú mörk þegar lið hennar AIK vann HF Karlskrona með miklum yfirburðum, 34:17, á heimavelli í næst efstu deild sænska handknattleiksins í gær. AIK, sem kom upp í deildina í vor eftir eins árs fjarveru, hefur unnið tvo fyrstu leiki sína til þessa.
- Tryggvi Þórisson skoraði fimm mörk fyrir IK Sävehof þegar sænsku meistararnir töpuðu fyrir HK Malmö, 35:32, á heimavelli í gær í fjórðu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. IK Sävehof situr í þriðja sæti með sex stig.
- IFK Kristianstad er efst í sænsku úrvalsdeildinni í karlaflokki með sjö stig. Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði eitt mark í sex marka sigri IFK í gær á liði Skånela IF, 33:27.
- Eftir hvern stórleikinn á fætur öðrum síðustu vikur kom Haukur Þrastarson lítið við sögu þegar Dinamo Búkarest vann CSM Bacau, 38:29, á heimavelli í fimmtu umferð rúmensku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Dinamo er efst í deildinni með 15 stig efti 5 leiki eins og Potaissa Turda.
- Janus Daði Smárason og félagar í OTP Bank PICK Szeged unnu sjötta leik sinn í ungversku 1. deildinni í gær þegar þeir lögðu CYEB Budakalász, 37:27, á útivelli í gær. Janus Daði skoraði eitt mark í leiknum.
- Arnór Viðarsson skoraði tvö mörk en Einar Þorsteinn Ólafsson ekkert í sex marka sigri liðs þeirra, Fredericia HK, á KIF Kolding, 26:20, á heimavelli í gær. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK sem er í áttunda sæti með fjögur stig eftir fjóra leiki.
- Auglýsing -