- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Signell hættur, dómarar merktir, Sagosen, Darleux, áfram los

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Henrik Signell er hættur þjálfun kvennalandsliðs Suður Kóreu í handknattleik eftir hálft annað ár í starfi. Signell segir margt í starfsumhverfinu í Suður Kóreu vera sérstakt. M.a. skorti ekki peninga en á sama tíma þá hafi stjórnendur handknattleikssambandsins enga þekkingu á handknattleik. 
  • Undir stjórn Signell hafnaði landslið Suður Kóreu í 10. sæti á Ólympíuleikunum og 22. sæti af 32 liðum á HM á síðasta ári. Ævintýralegasti sigur liðsins á starfstíma Signell var sigur á japanska landsliðinu í forkeppni ÓL sem haldið var í Japan
  • Forveri Signell, Daninn Kim Rasmussen, gafst upp eftir nokkra mánuði í starfi í Suður Kóreu.  Ein ástæða þess að Rasmussen hætti var sú að stjórnendur handknattleikssambandsins kröfðust þess að hann væri með ekki færri en þrjár æfingar á dag þann tíma sem landsliðið væri saman. 
  • Búningar dómara sem dæma leiki á EM kvenna sem fram fer Austurríki, Sviss og Ungverjalandi síðla á þessu ári verða merktir með nafni þeirra. Verður þetta í fyrsta sinn sem búningar dómara verða merktir nöfnum á stórmóti í handknattleik. 
  • Óvíst er hvenær norski landsliðsmaðurinn Sander Sagosen leikur næst með Kolstad frá Þrándheimi. Sagosen meiddist í öxl í fyrri hálfleik viðureignar Kolstad og Zagreb í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn eins og og handbolti.is sagði frá. Í tilkynningu frá Kolstad kemur fram að meiðslin séu alvarleg en að Sagosen sé í góðum höndum læknis og sjúkraþjálfara félagsins. 
  • Cléopatre Darleux, sem lengi hefur verið einn af markvörðum franska kvennalandsliðsins, hefur samið við Metz um að leika með liðinu til loka tímabilsins. Darleux, sem er 35 ára gömul, hefur verið samningslaus síðustu mánuði eftir að samningur hennar við Brest Bretagne rann út. Hún var í franska landsliðinu sem hlaut silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Frakklandi í ágúst. Darleux var frá keppni nánast allt síðasta tímabil vegna hjartsláttaróreglu sem erfiðlega gekk að ná stjórn á. 
  • Áfram er los á hlutunum hjá hinu forna þýska handknattleiksveldi, TV Großwallstadt. Í vikunni var þjálfarinn Michael Roth látinn taka pokann sinn eftir aðeins þrjá leiki í 2. deildinni, einn sigur og tvö töp. Roth tók við þjálfun TV Großwallstadt sumarið 2023. Á síðasta tímabili hafnaði liðið í áttunda sæti 2. deildar. Roth hefur víða komið við, fyrst sem leikmaður og síðar sem þjálfari, en hvergi verið til lengdar sem þjálfari. 
  • Jonas Truchanovicius leikmaður Stuttgart og landsliðsmaður Litáen er einstaklega óheppinn. Hann hefur á ný slitið krossband í hné. Aðeins er mánuður liðinn síðan Truchanovicius byrjaði að leika með Stuttgart eftir að hafa verið fjarverandi í ár vegna krossbandaslits.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -