HK náði í kvöld þriggja stiga forskoti í efsta sæti Grill 66-deildar kvenna í handknattleik eftir sigur á Aftureldingu, 24:20, í upphafsleik þriðju umferðar deildarinnar í Kórnum í Kópavogi.
HK er þar með áfram taplaust og með þriggja stiga forskot á Aftureldingu sem er í öðru sæti. KA/Þór og FH eru einnig með þrjú stig en eiga leiki inni á Aftureldingu og HK.
Eftir jafna stöðu í hálfleik, 12:12, þá byrjaði Aftureldingarliðið betur í síðari hálfleik. Liðið náði tveggja marka forskoti, 15:13, eftir liðlega sjö mínútur. Þá snerist taflið heldur betur við. Við tók frábær kafli HK-inga sem skoruðu sjö mörk í röð á 12 mínútna kafla. Mosfellingar voru ráðalitlir í sóknarleiknum. HK náði fimm marka forskoti, 20:15, sem leikmönnum Aftureldingar tókst alls ekki að ógna á þeim liðlega tíu mínútum sem eftir voru af leiktímanum.
Mörk HK: Hekla Fönn Vilhelmsdóttir 6, Leandra Náttsól Salvamoser 4, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 3, Amelía Laufey G. Miljevic 2, Anna Valdís Garðarsdóttir 2, Aníta Eik Jónsdóttir 2, Stella Jónsdóttir 1, Jóhanna Lind Jónasdóttir 1, Katrín Hekla Magnúsdóttir 1, Inga Fanney Hauksdóttir 1, Sóley Ívarsdóttir 1.
Varin skot: Danijela Sara Björnsdóttir 12, Tanja Glóey Þrastardóttir 1.
Mörk Aftureldingar: Anna Katrín Bjarkadóttir 6, Hulda Dagsdóttir 4, Katrín Helga Davíðsdóttir 4, Áróra Eir Pálsdóttir 3, Ragnhildur Hjartardóttir 2, Lovísa Líf Helenudóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 8, Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 4.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.