- Auglýsing -
- Auglýsing -

Við keyrum á þetta í Toulouse – Aron varð eftir heima

Jóhannes Berg Andrason verður í eldlínunni með FH gegn Toulouse í Frakklandi á morgun. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -


Aron Pálmarsson leikur ekki með FH gegn Fenix Toulouse í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik í Toulouse í Frakklandi. Aron er meiddur í hné en hann var heldur ekki með gegn Val í Olísdeildinni í Kaplakrika í síðustu viku. Ólafur Gústafsson hefur ekki náð fullri heilsu eftir að hafa farið í hnéaðgerð fyrir um mánuði. Þess utan meiddist Ásbjörn Friðriksson í leiknum við Val á dögunum og verður ekki með í Frakklandi. Þetta staðfesti Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolta.is í dag.

Ofan á annað er Ágúst Birgisson lasinn og óvíst með þátttöku hans eins og sakir standa.

Félagarnir Ólafur Gústafsson og Aron Pálmarsson fylgjast með leik FH og Vals í Kaplakrika í síðustu viku. Ljósmynd/J.L.Long

Verðugt verkefni

FH-ingar komu til Toulouse í gær og æfðu í keppnishöll borgarinnar fyrr í dag. „Við keyrum á þetta gegn hörkuliði. Framundan er verðugt verkefni,“ sagði Sigursteinn í samtali við handbolta.is eftir hádegið í gær. “Það eru forréttindi fyrir okkur að vera með í keppninni og um leið frábært tækifæri fyrir yngri menn til þess að taka að sér stærri hlutverk í stórleikjum og öðlast þar með mikilvæga reynslu til framtíðar.“

Leikur Fenix Toulouse og FH í Evrópudeildinni í handknattleik karla hefst klukkan 16.45 á morgun, þriðjudag. Ölhúsið í Hafnarfirði ætlar að sýna leikinn á breiðtjaldi.
Livey á útsendingarétt frá leikjum Evrópudeildar hér á landi en virðist ekki vera í mun að koma upplýsingum um útsendingar á framfæri.
Garðar Ingi Sindrason er einn af yngri og efnilegri leikmönnum Íslandsmeistara FH. Ljósmynd/J.L.Long

Taplausir á leiktíðinni

Fenix Toulouse hafnaði í fjórða sæti frönsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð og hefur farið með látum af stað á yfirstandandi keppnistímabili. Liðið er í efsta sæti deildarinnar með 10 stig eftir fimm leiki, eins og PSG. Frá síðasta tímabili hefur lið Fenix Toulouse styrkst og m.a. krækt í Serbann Uros Kojadinovic sem skoraði 13 mörk fyrir Partizan gegn FH viðureign liðanna í Evrópubikarkeppninni í Kaplakrika á síðasta ári.

Algjört topplið

„Þetta er algjört topplið sem leikur mjög hraðan og skemmtilegan handknattleik. Breiddin í hópnum er mjög mikil. Það er með tvö sett af leikmönnum sem skiptir á milli sín að leika í fimmtán mínútur án þess að sjáanlegt sé að gerðar séu breytingar, slíkur er styrkurinn,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH sem er hvergi banginn fremur en fyrri daginn.

Leikjadagskrá FH í riðlakeppni Evrópudeildar: (ísl.leiktímar)
8. október: Fenix Toulouse – FH, kl.16.45.
15. október: FH – Gummersbach, kl. 20.30.
22. október: FH – IK Sävehof, kl. 16.45.
29. október: IK Sävehof – FH, kl. 17.45.
19. nóvember: Gummersbach – FH. kl. 17.45.
26. nóvember: FH – Fenix Toulouse, kl. 19.45.
-Klukkan verður færð aftur um eina klukkustund í Evrópu aðfaranótt 27. október.

[email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -