- Auglýsing -
- Olivier Krumbholz, fyrrverandi landsliðsþjálfari Frakka í handknattleik kvenna, hefur verið tekinn inn í heiðurshöll franska íþróttasambandsins. Krumbholz stýrði kvennalandsliðinu í um um aldarfjórðung með frábærum árangri en undir hans stjórn vann landsliðið allt sem hægt var að vinna.
- Krumbholz lét af störfum í sumar að loknum Ólympíuleikunum en franska landsliðið tapaði fyrir norska landsliðinu í úrslitaleik handknattleikskeppni leikanna.
- Stefan Neff þjálfara þýska 2. deildarliðsins Eintracht Hagen var vikið frá störfum í gær vegna slaks árangurs liðsins í fyrstu leikjum leiktíðar. Hagen hefur náð tveimur jafnteflum en tapað þremur leikjum í fyrstu fimm leikjum sínum. Hákon Daði Styrmissonar er leikmaður Hagen. Hann er hinsvegar frá keppni vegna krossbandaslits.
- Stöðuna í þýsku 2. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Norski landsliðs- og hornamaðurinn Kristian Bjørnsen hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við danska meistaraliðið Aalborg Håndbold. Bjørnsen kom til félagsins fyrir þremur árum frá HSG Wetzlar í Þýskalandi. Aalborg lék til úrslita í Meistaradeild Evrópu í vor.
- Ungverska landsliðskonan Noémi Háfra hefur sagt upp samningi sínum við þýska meistaraliðið HB Ludwigsburg eftir rúmlega ársdvöl. Hún ætlar að taka upp þráðinn með Vác í heimalandi sínu.
- Um 70 stuðningsmenn danska úrvalsdeildarliðsins Fredericia HK fylgja liðinu til Parísar en í frönsku höfuðborginni mætir danska úrvalsdeildarliðið frönsku meisturunum PSG í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Arnór Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson leika með Fredericia HK auk þess sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar liðið. Tveir danskir handknattleiksmenn eru í röð PSG-liðsins, Jacob Holm og Jannick Green.
- Auglýsing -