Þýsku meistararnir SC Magdeburg töpuðu í kvöld í annað sinn í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð og hafa þar með þrjú stig eftir fjórar umferðir í B-riðli keppninnar. Pólska liðið Indurstria Kielce mætti til Þýskalands og fór heim með bæði stigin, 27:26, í hörkuleik eins og nær alltaf er raunin þegar þessi lið mætast. Kielce er með fjögur stig, hefur unnið tvær viðureignir en tapað tveimur. Stöðuna í B-riðli er að finna neðst í greininni.
Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru atkvæðamestir við markaskorun hjá Magdeburg. Ómar skoraði sjö mörk og gaf eina stoðsendingu. Gísli Þorgeir skoraði sex mörk og átti einnig eina stoðsendingu.
Daniel Dujshebaev skoraði sjö sinnum fyrir Magdeburg og Dylan Nahi var með fimm mörk.
Erfitt hjá Kolstad
Norska meistaraliðið Kolstad, sem er með fjóra íslenska handknattleiksmenn innan sinna vébanda, steinlá í heimsókn til franska liðsins Nantes, 44:27, eftir að hafa verið 15 mörkum undir í hálfleik, 26:11. Ekki stóð steinn yfir steini í vörn Kolstad en liðið er vængbrotið um þessar mundir. M.a. eru Sander Sagosen og Torbjørn Bergerud fjarverandi vegna meiðsla.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði þrjú mörk og var markahæstur Íslendinganna. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu. Mark Benedikts var glæsilegt er á meðal þeirra sem sjást í samantektinni hér fyrir ofan.
Sveinn Jóhannsson skoraði ekki að þessu sinni.
Sigurjón markvörður skoraði
Markvörðurinn Sigurjón Guðmundsson lék sinn fyrsta leik á ferlinum í Meistaradeildinni en hann kom óvænt inn í lið Kolstad fyrir hálfum mánuði vegna meiðsla Bergerud. Sigurjón gerði sér lítið fyrir og skoraði mark í dag auk þess að verja eitt skot af þeim 20 sem hann fékk á sig. Sannkölluð eldskírn hjá pilti.
Aymeric Minne og Kauldi Odriozoa skoruðu sex mörk hvor fyrir Nantes.
Meistararnir með fullt hús stiga
Barcelona er eina liðið með fullt hús stiga í B-riðli. Liðið vann Danmerkurmeistara Aalborg Håndbold, 35:27, í Barcelona í kvöld í endurfundum liðanna sem léku til úrslita í Meistaradeildinni í vor.
Að vanda dreifðist markaskorið á milli leikmanna Barcelona. Aleix Gómez og Luis Frade skoruðu fimm mörk hvor og voru markahæstir. Marinus Munk skoraði átta mörk fyrir Álaborgarliðið.
Staðan í B-riðli: