- Auglýsing -
- Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk þegar MT Melsungen vann Stuttgart, 36:27, í 6. umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik á útivelli gær, aðeins tveimur sólarhringum eftir að liðið lék við Porto í Portúgal í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik.
- Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark fyrir MT Melsungen í leiknum. Honum var í tvígang vikið af leikvelli í tvær mínútur. Melsungen tyllti sér á topp þýsku 1. deildarinnar með sigrinum í gær. Liðið hefur 10 stig að loknum sex leikjum. Flensburg er með níu stig eftir fimm viðureignir.
- Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Sven-Sören Christophersen íþróttastjóri þýska handknattleiksliðsins Hannover-Burgdorf hefur framlengt starfssamning sinn við félagið til næstu fjögurra ára. Christophersen hefur verið íþróttastjóri félagsins frá 2018 en þar áður var hann leikmaður félagsins frá 2014. Christophersen er sagður vera einn lykilmanna við uppbyggingu Hannover-Burgdorf sem er komið í fremstu röð í Þýskalandi og tók þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sögu sinni leiktíðina 2023/2024. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
- Fabian Böhm fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Þýskalands. Böhm lagði skóna á hilluna í vor. Síðast lék hann með HC Kriens-Luzern í Sviss og kynntist þar Andy Schmid núverandi þjálfara karlalandsliðs Sviss.
- Annar fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands, Finn Lemke, hefur tekið við starfi aðstoðarþjálfara hjá MT Melsungen. Hann kemur í stað Hollendingsins Arjan Haenen sem lét óvænt af störfum í upphafi vikunnar. Lemke lék með Melsungen frá 2017 til 2023 þegar hann hætti aðeins 31 árs gamall. Auk þess að vera aðstoðarmaður Roberto Parrondo verður Lemke þjálfari varaliðs Melsungen.
- Auglýsing -