- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fram fór upp að hlið Gróttu og FH eftir sigur í kaflaskiptum leik

Eiður Rafn Valsson skoraði fimm mörk fyrir Fram í kvöld. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -


Fram færðist upp að hlið Gróttu og FH í annað til fjórða sæti Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld með sigri á KA, 34:28, í Lambhagahöllinni í Úlfarsádal en leikurinn var liður í sjöttu umferð deildarinnar. KA-menn sitja áfram á botni deildarinnar með tvö stig, stigi á eftir HK sem þeir mæta í næstu umferð deildarinnar í KA-heimilinu á fimmtudaginn.

Leikurinn í Lambhagahöllinni var nokkuð kaflaskiptur af hálfu beggja liða. KA var síst lakara liðið fyrstu 20 mínúturnar áður en hvert axarskaftið rak annað í sóknarleiknum. Framliðið gekk á lagið og skoraði átta af síðustu 10 mörkum fyrri hálfleiks og náði sex marka forskoti, 19:13, þegar fyrri hálfleikur var að baki. Þrátt fyrir þennan mun hafði Nicolai Horntvedt Kristensen markvörður KA varið 11 skot. Leikmönnum Fram gekk afar illa að nýta opin færi sem þeir léku sig í.

Ekki virtist blása byrlega fyrir KA í upphafi síðari hálfleiks eftir afleitan lokakafla í þeim fyrri. Annað kom á daginn. Leikmenn Fram misstu niður þráðinn og KA-liðið gekk á lagið með Bjarna Ófeig Valdimarsson fremstan í flokki. Hann stóð upp úr í KA-liðinu ásamt Nicolai markverði í fyrri hálfleik. Einnig mætti Arnór Ísak Haddsson áræðin til leiks í síðari hálfleik. Bjarni Ófeigur hélt áfram að gera leikmönnum Fram gramt í geði í síðari hálfleik.

Um miðjan síðari hálfleik var forskot Fram komið niður í eitt mark hvað eftir annað. Einar Jónsson þjálfari Fram tók leikhlé og talaði með tveimur hrútshornum við sína menn. Það virtist lítið hjálpa upp á sakirnar í fyrstu.

Fjórtán mínútum fyrir leikslok var staðan 23:22 fyrir Fram. KA missti þá tvo leikmenn af velli á einni mínútu. Framarar nýttu sér það. Skoruðu fjögur mörk á undraskömmum tíma. Þeir héldu sjó eftir það og fögnuðu glatt sigrinum.

Tveir úr leik

Einar Rafn Eiðsson lék ekki með KA vegna meiðsla. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var ekki með Fram vegna tognunar í læri. Gauti sagði við handbolta.is eftir leikinn að ekki væri um alvarleg meiðsli að ræða.

Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 10/2, Ívar Logi Styrmisson 6/5, Eiður Rafn Valsson 5, Rúnar Kárason 5, Bjartur Már Guðmundsson 2, Erlendur Guðmundsson 2, Theodór Sigurðsson 2, Tryggvi Garðar Jónsson 1, Breki Hrafn Árnason 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 9, 29% – Arnór Máni Daðason 4, 40%.

Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 11/3, Arnór Ísak Haddsson 4, Dagur Árni Heimisson 3, Ott Varik 3, Logi Gautason 2, Patrekur Stefánsson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1, Kamil Pedryc 1, Jóhann Geir Sævarsson 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 14/2, 33,3% – Bruno Bernat 4, 40%.

Tölfræðin hjá HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Handbolti.is var í Lambhagahöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -