Valur lagði ÍR með fimm marka mun í einum mesta markaleik síðari ára í Olísdeild karla, 41:36, á heimavelli í kvöld. Eins og úrslitin gefa til kynna drógu leikmenn liðanna ekkert af sér í N1-höll Valsara í kvöld. Alls var skorað 41 mark í fyrri hálfleik, 24:17.
Vart þarf að taka fram að báðum liðum líkar vel að leika hratt og víst er að leikmenn fengu lausan tauminn til þess.
Varnarleikurinn sat fyrir vikið töluvert á hakanum. Reyndar varði Björgvin Páll Gústavsson ágætlega í marki Vals og náði að fylgja eftir frábærri frammistöðu sinni í Skopje á þriðjudagskvöldið.
Ekki var nema rétt um sólarhringur liðinn síðan leikmenn Vals komu heim úr Evrópureisu sinni þegar leikurinn hófst í kvöld. Þeir hlupu svo sannarlega úr sér ferðastrengina.
Bjarni Selvindi, sem haltraði af leikvelli í Skopje a þriðjudagskvöld dró ekki af sér í leiknum og skoraði níu sinnum fyrir Val.
Enn og aftur átti Baldur Fritz Bjarnason stórleik með ÍR. Pilturinn hefur svo sannarlega sprungið út á leiktíðinni og er m.a. markahæstur í Olísdeildinni. Samherji Baldurs, Bernard Kristján Darkoh, kunni einnig afar vel við sig í hraðanum á fjölunum á Hlíðarenda.
Valur var með yfirhöndina frá upphafi til enda. ÍR-ingar voru skrefi á eftir. Þeir létu samt aldrei deigan síga og náðu forskoti Vals niður í fjögur mörk þegar halla tók á síðari hálfleik. Nær komust leikmenn ÍR ekki.
Valur er nú í hópi með ÍBV og Haukum með sjö stig í fimmta til sjöunda sæti. ÍR er í 11. sæti með þrjú stig eins og HK, stigi fyrir ofan KA.
Mörk Vals: Bjarni Selvindi 9, Ísak Gústafsson 6/2, Allan Norðberg 5, Magnús Óli Magnússon 4, Andri Finnsson 4, Agnar Smári Jónsson 3, Daníel Örn Guðmundsson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Miodrag Corsovic 2, Viktor Sigurðsson 2, Dagur Leó Fannarsson 1, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16, 30,8%.
Mörk ÍR: Baldur Fritz Bjarnason 12/4, Bernard Kristján Darkoh 9, Andri Freyr Ármannsson 3, Jökull Blöndal Björnsson 3, Sigurvin Jarl Ármannsson 2, Bjarki Steinn Þórisson 2, Hrannar Ingi Jóhannsson 2, Sveinn Brynjar Agnarsson 1, Eyþór Ari Waage 1, Róbert Snær Örvarsson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 7/1, 21,9% – Arnór Freyr Stefánsson 4, 20%.
Tölfræði HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.