Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknattleik segir ljóst að hann hafi stigið rétt skref í sumar þegar hann gekk til liðs við rúmenska meistaraliðið Dinamo Búkarest og kvaddi um leið pólska liðið Industria Kielce eftir fjögurra ára veru sem var mörkuð af tvennum krossbandaslitum.
„Mér hefur gengið vel, ekki síst í Meistaradeildinni. Deildin heima er annað mál. Margir leikir þar er formsatriði að klára og það höfum við gert,“ sagði Haukur í samtali við handbolta.is í Tíblisi um helgina þar sem hann var með íslenska landsliðinu vegna leiks við Georgíu í undankeppni EM 2026.
Hefur sína kosti
„Kosturinn við deildina heima er sá að við höfum getað sett mikinn fókus á Meistaradeildina þar sem okkur hefur gengið afar vel. Persónulega hefur mér vegnað vel og ljóst virðist að það hafi gengið upp sem ég var að hugsa með þessum breytingum, það er að komast í stærra hlutverk hjá liði sem er í alvöru keppni í Meistaradeildinni. Það hefur gengið upp,“ sagði Haukur sem líkar vel við lífið í Búkarest ásamt unnustu sinni.
Dinamo Búkarest er í þriðja sæti A-riðils Meistaradeildar Evrópu með 10 stig að loknum sjö leikjum, fimm sigurleikir, tvö töp. Veszprém er efst í riðlinum með 12 stig. PSG er einnig með 12 stig í öðru sæti áður en að Dinamo kemur. Sporting Lissabon situr í fjórða sæti en alls eru átta lið í hvorum riðli Meistaradeildar Evrópu.
Viðbrigði að flyta til stórborgar
„Það voru svolítil viðbrigði að flytja úr bæ í Póllandi í stórborg í Rúmeníu. Við erum að venjast þessu og kunnum ágætlega við okkur. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði Haukur Þrastarson landsliðsmður í handknattleik og leikmaður rúmenska meistaraliðsins Dinamo Búkarest.
Haukur er fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn sem leikur með rúmensku félagsliði.