- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stoltur af liðinu og liðsheildinni sem skóp sigurinn

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
- Auglýsing -


„Frammistaðan var frábær og ég er fyrir vikið stoltur af liðinu og þeirri liðsheild sem skóp sigurinn. Varnarleikurinn var frábær allan leikinn. Okkur tókst að stöðva línuspil og annað í leik Kristianstad sem gerði okkur lífið leitt í fyrri viðureigninni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals sem var skiljanlega í sjöunda himni þegar handbolti.is heyrði í honum eftir að Valur tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik með öðrum sigri á Kristianstad HK í Svíþjóð í dag, 29:24. Valur vann samanlagt, 56:48, í tveimur viðureignum.

Grunnþættirnir voru frábærir

„Auk varnarleiksins þá gengu ýmsir aðrir þættir í okkar leik mjög vel, svo sem keyrsla fram völlinn, hlaup til baka voru betri. Margir grunnþættir í leik liðsins voru frábærir,“ sagði Ágúst Þór ennfremur sem verður að bíða til þriðjudagsins eftir að sjá hvaða liði Valur mætir í 16-liða úrslitum í janúar.

Ágúst Þór segir það afar vel gert hjá Valsliðinu að leika jafnvel og það gerði að þessu sinni. Leikmenn Kristinstad eru afar kvikir á fótunum og leika hratt.

Sjá einnig: Valur skellti í lás í síðari hálfleik – sæti í 16-liða úrslitum er í höfn

Útheimtir mikla orku

„Þess vegna útheimtir það mikla orku að leika vörnina eins og við gerðum. Við vorum undir það búin að fara í 3/2/1 vörn en til þess kom ekki, sex núll vörnin okkar var frábær með miðjublokkina mjög sterka og Hafdísi [Renötudóttur] í fantastuði. Fyrir vikið fengum við slatta af hraðaupphlaupum sem vógu þungt á metunum,“ sagði Ágúst Þór.

Þetta sýnir okkur að íslenski kvennaboltinn og deildin er réttri leið. Það er mikið hrós á stelpurnar heima

Kraftur í upphafi síðari hálfleiks

Fyrri hálfleikur var í járnum. Valur var marki yfir, 15:14, að loknum 30 mínútum. „Við komum af miklum krafti inn í síðari hálfleik, tókum fljótlega völdin og náðum mest átta marka forskoti. Það má segja að þegar 10 til 15 mínútur voru til leiksloka hafi úrslitin verið ráðin. Stelpurnar sigldu sigrinum fagmannlega í höfn,“ sagði Ágúst Þór.


Ágúst Þór undirstrikar að sigurinn sýni að styrkleikinn sé vaxandi í íslenskum kvennahandknattleik. „Ég var spenntur fyrir leikina að sjá hvar við stæðum gegn góðu sænsku úrvalsliði. Miðið við þessa frammistöðu og tvo sigra, heima og að heiman, þá er ég stoltur af liðinu. Þetta sýnir okkur að íslenski kvennaboltinn og deildin er á réttri leið. Það er mikið hrós á stelpurnar heima,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals og aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins sem kemur saman á mánudaginn fyrir EM sem hefst síðar í þessum mánuði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -