Áfram eru Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting Lissabon í efsta sæti portúgölsku 1. deildarinnar í handknattleik. Þeir félagar unnu Ágúas Santas Milaneza, 36:28, á heimavelli í kvöld og hafa þar með unnið 12 fyrstu leiki sína í deildinni. Orri Freyr skoraði fjögur mörk fyrir meistarana sem voru fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 20:16.
Þorsteinn Leó Gunnarsson og liðsmenn Porto unnu stórsigur á Vítoria, 36:21, á útivelli í dag og endurheimtu þar með annað sæti deildarinnar sem Stiven Tobar Valencia og liðsfélagar náðu í gærkvöld með sigri á Madeira Andebol SAD, 35:25.
Þorsteinn Leó var markahæstur hjá Porto í leiknum við Vítora. Hann skoraði sex mörk með bylmingsskotum. Porto er þremur stigum á eftir Sporting í öðru sæti. Þrjú stig eru gefin fyrir sigur í portúgölsku 1. deildinni.
Stöðuna í portúgölsku 1. deildinni og fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.