0
„Ég hlakka mikið til þess að taka þátt núna eftir skellinn í fyrra,“ segir Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður Hauka og landsliðskona í handknattleik sem er ein átján kvenna í íslenska landsliðinu sem tekur þátt í Evrópumótinu sem hefst undir lok næstu viku. Elín Klara meiddist tveimur dögum áður en lagt var af stað á heimsmeistaramótið fyrir ári og varð að draga sig af þeim sökum út úr hópnum.
Elín Klara segist ekki hafa dvalið lengi við vonbrigðin fyrir ári heldur mætt tvíefld til leiks eftir áramótin. „Síðan hefur mér gengið vel og nú fer ég á EM með miklar væntingar fyrir liðinu. Verkefni okkar verður krefjandi. Leikirnir verða erfiðir en um leið verða þeir geggjað tækifæri fyrir okkur á þessu stóra sviði,“ segir Elín Klara.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Landsliðið fer til Sviss í fyrramálið hvar það æfir og leikur tvo vináttuleiki við svissneska landsliðið á föstudag og sunnudag. Alvaran hefst strax, ekkert verður slegið af til þess að undirbúningurinn verði sem bestur. „Við ætlum að nýta leikina vel til undirbúnings.“
Sjá einnig: EM-hópurinn hefur verið opinberaður
Keppnisferðir og próf í HR
Elín Klara hefur svo sannarlega í mörg horn að líta. Hún kom til landsins á mánudaginn eftir fimm daga ferð til Króatíu með félögum sínum í Haukum vegna tveggja leikja í Evrópubikarkeppninni á laugardag og sunnudag. Þar á ofan er Elín Klara á öðru ári í vélaverkfræði í HR. Hún lauk við síðasta prófið í dag og þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af námi meðan hún stendur í ströngu með landsliðinu á sínu fyrsta stórmóti með A-landsliðinu.
„Skólinn hefur sýnt mér mikinn sveigjanleika sem ég er afar þakklát fyrir,“ segir Elín Klara Þorkelsdóttir landsliðskona sem er skiljanlega afar spennt fyrir næstu vikum á handboltavellinum.
- 24 landslið taka þátt í EM kvenna. Þau hafa verið dregin í sex fjögurra liða riðla. Tvö lið halda áfram úr hverjum riðli yfir í milliriðla. Tvö neðstu liðin falla úr leik.
- Riðlakeppnin verður leikin í Debrecen í Ungverjalandi, Basel í Sviss og Innsbruck í Austurríki.
- Milliriðlar verða leiknir í Debrecen og Vínarborg.
- EM hefst 28. nóvember og lýkur með úrslitaleik 15. desember í Vínarborg.
- Handbolti.is verður vitanlega á EM, án ríkisaðstoðar, og fer utan með blaðamann og ljósmyndara sem fylgja landsliðinu eftir meðan það stendur í ströngu.
A-landslið kvenna – fréttasíða.