Sterklega kemur til greina að Hafsteinn Óli Ramos Rocha leikmaður Gróttu leiki með landsliði Grænhöfðaeyja á heimsmeistaramótinu í handknattleik í janúar. Ef til þess kemur verður fyrsti leikurinn gegn íslenska landsliðinu í Zagreb 16. janúar. Hafsteinn Óli var á dögunum í keppnisferð hjá landsliðinu.
Kemur vel til greina
„Það kemur bara vel til greina að ég verði í hópnum en það skýrist betur í byrjun desember þegar hópurinn verður tilkynntur,“ sagði Hafsteinn Óli í samtali við handbolta.is í dag. Hann er skiljanlega mjög spenntur fyrir komandi vikum. Æfingar landsliðs Grænhöfðaeyja fyrir HM hefjast 26. desember.
Hafsteinn Óli var á dögunum í æfinga- og keppnisferð með landsliðinu til Kúveit þar sem hann tók þátt í þremur vináttulandsleikjum, gegn Barein, Túnis og Kúveit.
„Þetta var bara virkilega skemmtilegt og mér gekk vel. Lék um 30 mínútur í hverjum leik. Það var virkilega gaman að klæðast landsliðstreyjunni,“ sagði Hafsteinn Óli.
Eins og kom fram í sumar fór Hafsteinn Óli til Grænhöfðaeyja til þess að hitta stjórnendur landsliðsins og ganga frá ríkisborgararétti til þess að eiga möguleika á því tækifæri að leika fyrir landsliðið sem er á meðal þeirra sterkustu í Afríku. Faðir Hafsteins Óla er frá Grænhöfðaeyjum.
Hafstenn Óli lék með yngri landsliðum Íslands. Hann gekk til liðs við Gróttu í sumar eftir þriggja ára veru hjá HK.
Grænhöfðaeyjar eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi, nærri 600 km undan vesturströnd Afríku og bera nafn sitt af höfða (Cap-Vert) á strönd Senegal.
Sjá einnig:
Leikur nýbakaður Gróttumaður fyrir landslið Grænhöfðaeyja?