Ísak Steinsson, markvörður, og liðsfélagar hans í norska úrvalsdeildarliðinu Drammen unnu RK Leotar Trebinje, 33:30, í fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik í gær. RK Leotar Trebinje var marki yfir að loknum fyrri hálfleik.
Leikið var í Trebinje í Bosníu en þar fer síðari leikur liðanna einnig fram á morgun, sunnudag. Samanlagður sigurvegari leikjanna tekur sæti í 16-liða úrslitum.
Ísak, sem nýverið var valinn í 35 manna hóp Íslands fyrir EM í janúar, stóð í marki Drammen drjúgan hluta leiksins og varði sjö skot, 29%.
Hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg skoraði fjórum sinnum fyrir Drammenliðið. Emil Hansson var markahæstur með sex mörk.
Í dag og á morgun leika Dagur Gautason og félagar í ØIF Arendal báða leiki sína gegn Diomidis Argous í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í Grikklandi.