„Fyrri hálfleikur var fínn hjá okkur. Ég hefði viljað halda viðureigninni lengur jafnri en raun varð á. Við misstum eiginlega allt í síðari hálfleik,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við samfélagsmiðla félagsins eftir átta marka tap fyrir Porto ytra í síðustu umferð riðlakeppni Evrópudeildar í gærkvöld, 37:29. Valur var marki undir í hálfleik. Með leiknum lauk þátttöku Vals í Evrópukeppni félagsliða á þessari leiktíð.
Porto sýndi styrk sinn í síðari hálfleik
„Sóknin varð hægari í síðari hálfleik. Við vorum með tvær skiptingar og lentum fyrir vikið í vandræðum með hraðaupphlaupin. Auk þess þá náðum við aldrei að tengja nógu vel í vörninni. Því fór sem fór,“ sagði Óskar Bjarni.
Ánægður með yngri leikmenn
„Það verður ekki af okkur tekið að fyrri hálfleikur var mjög góður hjá okkur og á köflum gerðum við margt mjög vel. Ég er einnig ánægður með að fá unga menn inn í leik okkar. Þeir eldri gerðu vel í að hjálpa þeim yngri. Reynslan sem menn fá út úr þátttöku í svona keppni gefur leikmönnum mjög mikið,“ sagði Óskar Bjarni ennfremur og bætti við.
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 6. umferð, úrslit
„Við höfum vaxið mjög mikið með þessu verkefni sem þátttakan í Evrópudeildinni er og orðið betri og betri eftir því sem á hefur liðið. Það er hægt að gleðjast yfir mörgu en ég hefði vilja vera með jafnari leik lengur að þessu sinni en raun varð á,” sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals eftir leikinn í Porto í gærkvöld.
Lengra viðtal við Óskar Bjarna er að finna hér fyrir neðan.