Arnór Atlason og félagar í danska liðinu Aalborg Håndbold urðu í kvöld danskir meistarar í handknattleik karla eftir öruggan sigur, 32:26, á Bjerringbro/Silkeborg í oddaleik í Gigantium-íþróttahöllinni í Álaborg.
Þetta er þriðja árið í röð sem Aalborg Håndbold verður meistari og í sjötta sinn frá 2010 að félagið var sett á fót. Arnór hefur fjórum sinnum orðið meistari með liðinu, einu sinni sem leikmaður og þrisvar í hlutverki aðstoðarþjálfara.
Þar með er einnig ljóst að Aalborg Håndbold tekur sæti í Meistaradeild Evrópu í handknattleik á næsta keppnistímabili en Danir eiga eitt sæti í keppninni. Aalborg varð í öðru sæti í Meistaradeildinni sem lauk á síðasta sunnudag og ætlar sér ekki að ná síðri árangri á næsta ári þegar Aron Pálmarsson verður kominn í leikmannahópinn.
Aalborg-liðið var með öll tök á leiknum í kvöld frá upphafi til enda. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn fimm mörk, 17:12.
Leiktíðin er ekki á enda hjá Aalborg. Á laugardaginn mætir liðið Viktori Gísla Hallgrímssyni og félögum í GOG í undanúrslitum dönsku bikarkeppninnar og takist meisturunum að vinna þá viðureign leika þeir til úrslita á sunnudag.
- Fyrirfram hefði ég alltaf þegið jafntefli – fyllum Hlíðarenda á laugardag
- Uppgjör á Hlíðarenda eftir skiptan hlut í Porriño
- Vil sjá einbeitt lið og troðfulla höll
- Taka til varna vegna bannsins langa
- Þjálfari BM Porriño segir hraðann vera lykil að sigri