- Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá Sporting með sjö mörk þegar liðið vann Avanca Bioria Bondalti, 34:16, í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Lissabon. Þetta var fjórtándi sigurleikur Sporting í deildinni á leiktíðinni. Liðið er í efsta sæti og hefur ekki tapað stigi.
- Arnar Birkir Hálfdánsson lék við hvern sinn fingur og skoraði níu mörk í 10 skotum þegar lið hans Amo HK vann kærkominn sigur á Skövde, 34:29, í sænsku úrvalsdeildinni á heimavelli í gær. Treglega hefur gengið hjá Amo á leiktíðinni og því er hver sigur kærkominn. Amo HK er áfram í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar en er nú með átta stig eftir 12 leiki, er stigi á eftir Helsingborg sem á leik til góða.
- Heiðmar Felixson og liðsmenn Hannover-Burgdorf færðust upp að hlið MT Melsungen í efst sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik með afar öruggum sigri á Lemgo á útivelli, 31:23. Heiðmar er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Þýski landsliðsmaðurinn Renars Uscins skoraði 10 mörk fyrir Hannover-Burgdorf.
- Arnór Þór Gunnarsson og liðsmenn hans í Bergischer HC er áfram í efsta sæti þýsku 2. deildarinnar eftir sigur á Nordhorn–Lingen, 35:26, á heimavelli í gær. Tjörvi Týr Gíslason skoraði ekki mark fyrir Bergischer í leiknum.
- Elmar Erlingsson skoraði eitt mark og er skráður fyrir einni stoðsendingu í liði Nordhorn sem er í 15. sæti deildarinnar með 11 stig að loknum 13 leikjum.
- Aron Pálmarsson skoraði eitt mark og Bjarki Már Elísson tvö þegar Veszprém vann FTC, 44:29, á útivelli í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Búdapest. Veszprém er jafnt Pick Szeged að stigum í efsta sæti deildarinnar með 20 stig eftir 11 leiki.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og liðsmenn í Skanderborg AGF gerðu það svo sannarlega gott í gær í heimsókn til Fredericia HK. Þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu með tveggja marka mun, 32:30, í 13. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Donni skoraði eitt mark.
- Einar Þorsteinn Ólafson skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu í liði Fredericia. Arnór Viðarsson var ekki með fremur en í síðustu leikjum liðsins. Guðmundur Þórður Guðmundsson lét sig ekki vanta á hliðarlínuna við að stjórna liðinu. Fredericia er í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 17 stig eftir 13 leiki. Skanderborg er í 5. sæti með 16 stig.
- Auglýsing -