- Auglýsing -
- Japanska landsliðið varð í gær Asíumeistari í handknattleik kvenna eftir nauman sigur á landsliði Suður Kóreu, 25:24, í úrslitaleik Asíumótsins sem staðið hefur yfir í Nýju Delí á Indlandi síðan í upphafi mánaðarins. Suður Kórea var með þriggja marka forskot í hálfleik, 12:9.
- Kasakstan lagði Íran, 28:22, í leiknum um bronsverðlaunin á Asíumótinu. Fjórar efstu þjóðir á mótinu tryggðu sér farseðil á heimsmeistaramótið sem fram fer í Hollandi og Þýskalandi eftir ár. Bætast þjóðirnar fjórar í hóp þátttakenda en Angóla, Senegal, Túnis og Egyptaland verða fulltrúar Afríku eftir Afríkumótinu lauk í Kinsasa á sunnudaginn, eins og handbolti.is sagði frá hér.
- Sandra Toft sem kölluð var skyndilega inn í danska landsliðið á sunnudagskvöld vegna meiðsla Althea Reinhardt segir að hún muni aldrei neita að taka sæti í danska landsliðinu. Toft varð fyrir vonbrigðum að vera ekki valin í EM-hóp Dana eftir að hafa verið aðalmarkvörður landsliðsins í meira en áratug. „Meðan ég get þá mun ég aldrei neita því að hjálpa stelpunum,“ segir Toft í samtali við DR. Danir leika úrslitaleik við Hollendinga klukkan 17 í dag um sæti í undanúrslitum EM.
- Kurr er á meðal margra Svía yfir árangri kvennalandsliðsins á EM. Stefnt var í undanúrslit mótsins en ljóst að sænska landsliðið leikur um 5. sætið á mótinu eftir fremur ósannfærandi spilamennsku í milliriðlum. Sumir ganga svo langt að vilja segja Tomas Axnér landsliðsþjálfara upp störfum. Sænska landsliðið hefur náð inn í úrslit á þremur síðustu stórmótum.
- Danska handknattleikskonan Anja Andersen, sem að margra mati er besta handknattleikskona sögunnar, ætlar ekki að mæta á hátíðarkvöld Handknattleikssambands Evrópu, EHF, sem fram fer í Vínarborg á laugardagskvöld. Andersen verður þá tekin inn í frægðarhöll EHF.
- Andersen hefur ekki gefið upp ástæður fyrir væntanlegri fjarveru sinni. Talið er að það kunni að koma til af því að hún ásamt fleirum var misboðið að hún var ekki í fyrsta hópi handknattleiksfólks sem tekið var inn þegar frægðarhöll EHF var sett á laggirnar vorið 2023.
- Auglýsing -