- Auglýsing -
- Birta Rún Grétarsdóttir skoraði ekki fyrir Fjellhammer þegar liðið tapaði sínu fyrsta stigi í næst efstu deild í norska handknattleiknum í gær. Fjellhammer, sem vann fyrstu 10 leiki sínar í deildinni, sættist á skiptan hlut á heimavelli gegn Aker Topphåndball. Aker var marki yfir í hálfleik.
- Elna Ólöf Guðjónsdóttir var ekki í leikmannahópi Strindheim í gær þegar liðið tapaði fyrir Selbu á heimavelli, 21:15, í 2. deild kvenna, fjórða hluta. Staðan var jöfn í hálfleik, 9:9. Elna Ólöf gekk til liðs við Strindheim í haust eftir að hún flutti til Noregs ásamt Sigurjóni Guðmundssyni markverði Charlottenlund. Strindheim er í 7. sæti af 12 liðum deildarinnar með 10 stig eftir 11 leiki.
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði fimm mörk í öruggum sigri meistara Sporting Lissabon á SC Horta á útivelli í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær, 41:22. Sporting er með 49 stig í efsta sæti eins og Porto en stendur betur að vígi í innbyrðis viðureignum.
- Þorsteinn Leó Gunnarsson og liðsmenn Porto fylgja Sporting eftir eins og skugginn. Porto vann Águas Santas Milaneza, 39:24, á heimavelli í gær. Þorsteinn Leó skoraði þrisvar sinnum og lét þar við sitja.
- Stiven Tobar Valencia og liðsmenn Benfica unnu Póvoa AC á heimavelli, 39:24. Stiven Tobar skoraði tvö mörk. Benfica er í þriðja sæti portúgölsku 1. deildarinnar með 45 stig, fjórum á eftir forystuliðunum, Sporting og Porto.
- Elmar Erlingsson skoraði sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar í kærkomnum sigri Nordhorn-Lingen, 33:28 á útivelli gegn Coburg, fyrrverandi liði Tuma Steins Rúnarssonar. Leikurinn var liður í 15. umferð 2. deildar þýska handknattleiksins. Nordhorn-Lingen mjakast ofar í deildinni eftir erfiða byrjun. Liðið er komið upp í 12. sæti með 15 stig.
- Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður fékk frí í gær þegar Wisła Płock lék við Energa Borys MMTS Kwidzyn í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Fjarvera Viktors Gísla kom ekki að sök því liðið vann með 18 marka mun, 37:19. Wisła Płock er efst með fullt hús stiga, 48 eftir 16 leiki. Gefin eru þrjú stig fyrir sigur í pólsku úrvalsdeildinni eins og sumsstaðar annarstaðar.
- Auglýsing -