„Það er frábært að leika fyrir sitt uppeldisfélag. Vissulega mikil breyting en ég er mjög sáttur þar sem ég er núna,“ segir Oddur Gretarsson handknattleiksmaður hjá Þór Akureyri í samtali við handbolta.is. Oddur flutti heim í sumar eftir 11 ár í Þýskalandi hvar hann lék í tveimur efstu deildum með Emsdetten og Balingen-Weilstetten.
Oddur og Þórsarar hafa farið mikinn í Grill 66-deildinni. Liðið er í efsta sæti með 16 stig eftir níu umferðir og Oddur er markahæstur leikmanna liðsins með 67 mörk, þar af skoraði hann 13 mörk í 13 skotum gegn Val2 á síðasta laugardag.
„Það var smá hikst á okkur í upphafi en síðan hefur gengið vel. Við megum ekki slaka á því það eru fleiri góð lið í baráttunni um efstu sætin. Okkar markmið er skýrt. Á næstunni söfnum við kröftum en höldum áfram að safna kröftum í janúar. Síðan höldum við áfram að keyra á þetta af krafti,“ segir Oddur og bætir við að stígandi hafi verið í leik Þórs. Fleiri nýir leikmenn hafi bæst í hópinn fyrir leiktíðina. Þess vegna sé eðlilegt að tíma taki að stilla saman strengina.
Oddur er þakklátur fyrir að geta lagt sitt lóð á vogarskálina við uppbyggingastarfið hjá Þór. Hann sér fram á bjarta tíma hjá félaginu þegar kemur að handboltanum.
„Við förum sáttir í jólafrí,“ segir Oddur sem stefnir á að leika í Olísdeildinni á næstu leiktíð þótt hann slái vissulega þann varnagla að enn sé sæti í deildinni ekki í hendi hjá Þórsurum.
Lengra viðtal við Odd er á myndskeiði í þessar frétt.
Grill 66-deild karla – fréttasíða.
Oddur hefur samið um að leika með Þór
Viðtal við Halldór Örn þjálfara Þórs: