Oft hefur gengið betur hjá liðum íslenskra handknattleiksmanna í þýska handknattleiknum en í kvöld. Gummersbach og Göppingen biðu lægri hlut í 1. deildinni og efsta lið 2. deildar, Bergischer HC, varð að játa sig sigrað í heimsókn til Eintracht Hagen sem beit óvænt frá sér eftir fremur dapurt gengi fram til þessa í deildinni. Daníel Þór Ingason og liðsfélagar í Balingen-Weilstetten fóru sem betur fer með bros á vör heim frá viðureign sinni við HSG Konstanz.
Teitur Örn með tvö
Teitur Örn Einarsson skoraði tvisvar og átti tvær stoðsendingar þegar liðsmenn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach töpuðu í heimsókn til Wetzlar, 32:29. Elliði Snær Viðarsson lék annan leikinn röð með liðinu eftir fjarveru vegna meiðsla. Hann skoraði eitt mark. Milos Vujovic var markahæstur með átta mörk, sjö þeirra úr vítaköstum.
Fyrstu mörk Viktors
Viktor Petersen Norberg skoraði sín fyrstu mörk fyrir Wetzlar eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá Drammen fyrir rúmri viku. Viktor skoraði fjögur mörk og átti eina stoðsendingu. Stefan Cavor skoraði flest mörk Wetzlar-liðsins, átta.
Stórt tap í Max-Schmeling-Halle
Ýmir Örn Gíslason og félagar í Frish Auf! Göppingen fengu ekkert við leikmenn Füchse Berlin ráðið í Max-Schmeling-Halle. Heimaliðið vann með 12 marka mun, 35:23, eftir að hafa verið fjórum mörk yfir í hálfleik, 16:12. Ýmir Örn tók aðallega þátt í varnarleik Göppingen og var einu sinni vikið af leikvelli.
Aldrei slíku vant var Daninn Mathias Gidsel ekki markahæstur hjá Füchse Berlin heldur var Tim Freihöfer atkvæðamestur með níu mörk. Gidsel skoraði sjö sinnum.
Oskar Sunnefeldt var markahæstur hjá Göppingen með sjö mörk.
Stöðuna í þýsku deildunum og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
Balingen í öðru sæti
Daníel Þór Ingason og félagar í Balingen-Weilstetten eru áfram í öðru sæti 2. deildarinar eftir góðan sigur á HSG Konstanz, 31:25, á heimavelli. Daníel Þór átti eina stoðsendingu og lét síðan til sín taka í vörninni. Var honum einu sinni vikið af leikvelli.
Balingen-Weilstetten er í öðru sæti ásamt Hüttenberg með 21 stig. Liðin eru tveimur stigum á undan GWD Minden sem á leik til góða.
Fyrsti leikur Arnórs
Efsta liðið Bergischer HC tapaði fyrir Eintracht Hagen eins og áður segir, 34:32, á heimavelli Hagen. Arnór Viðarsson lék í fyrsta sinn fyrir Bergischer og skoraði eitt mark eins og Tjörvi Týr Gíslason. Tjörva Týr var einu sinni vísað af leikvelli.
Arnór Þór Gunnarsson er annar þjálfari Bergischer sem er með 24 stig í efsta sæti að loknum 16 leikjum. Hagen er í þriðja neðsta sæti.