- Auglýsing -
- Íslenska landsliðið í handknattleik tekur þátt í heimsmeistaramóti í 23. skipti í næsta mánuði þegar HM hefst í Danmörku, Króatíu og Noregi. Mótið verður um leið það fyrsta sem haldið verður í þremur löndum. Tvisvar hafa gestgjafar verðið fleiri en einn, HM 2019 var í Danmörku og Þýskalandi og HM 2023 var haldið í Póllandi og Svíþjóð.
- Alls hefur íslenska landsliðið leikið 138 sinnum á HM. Af þeim hafa 59 leikir unnist, sjö lokið með jafntefli og 72 tapast.
- Mesta tapið var fyrir Rússlandi, 25:12, á HM 1995. Stærsti sigurinn er á Ástralíu, 55:15, á HM 2003, í Portúgal.
- Fyrsti HM-leikur Íslands var gegn Tékkóslóvakíu 27. febrúar 1958 í Hermann Giesler-Halle í Magdeburg í Þýskalandi. Tékkar unnu, 27:17.
- Gunnlaugur Hjálmarsson skoraði fyrsta mark Íslands á heimsmeistaramóti. Gunnlaugur skoraði 44 mörk á þremur heimsmeistaramótum, 1958, 1961 og 1964.
- Íslenska landsliðið hefur skoraði 3.510 mörk á HM í 138 leikjum en fengið á sig 3.404 mörk.
- 152 handknattleiksmenn hafa tekið þátt fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramóti. Af þeim hafa 116 skorað a.m.k. eitt mark.
- Þrír handknattleiksmenn eru í HM-hóp Íslands að þessu sinni sem ekki hafa áður leikið á HM. Þeir eru Einar Þorsteinn Ólafsson, Orri Freyr Þorkelsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson.
- Fyrir tveimur árum voru tveir HM-nýliðar, Elvar Ásgeirsson og Hákon Daði Styrmisson.
- Lengst leið á milli móta hjá Herði Kristinssyni og Oddi Gretarssyni. Hörður var með á HM 1964 og aftur 10 árum síðari 1974. Sama var upp á teningnum hjá Oddi sem var með á HM 2011 og næst 2021.
- Björgvin Páll Gústavsson er sá leikmaður núverandi HM-hóps sem hefur oftast tekið þátt í heimsmeistaramóti, sjö sinnum, 2011 – 2023. Næstur er Aron Pálmarsson með fimm heimsmeistaramót. 2011, 2013, 2015, 2019, 2023. Þar á eftir koma Arnar Freyr Arnarsson og Bjarki Már Elísson með fjögur mót, 2017, 2019, 2021 og 2023.
- Guðjón Valur Sigurðsson hefur leikið flesta HM-leiki, 57. Ólafur Stefánsson er næstur á eftir með 54. Síðan er Björgvin Páll Gústavsson með 46, Guðmundur Hrafnkelsson 44 og Ásgeir Örn Hallgrímsson 37.
- Sex leikmenn hafa skorað fleiri en 100 mörk fyrir íslenska landsliðið á HM, Guðjón Valur Sigurðsson 294 (8), Ólafur Stefánsson 227 (7), Alexander Petersson 151 (5), Bjarki Már Elísson 125 (4), Patrekur Jóhannesson 121 (5), Snorri Steinn Guðjónsson 112 (5). Fjöldi móta er innan sviga.
- Þrennir feðgar hafa klæðst íslensku landsliðstreyunni á heimsmeistaramóti, Geir Hallsteinsson og Logi Geirsson, Atli Hilmarsson og Arnór Atlason, Kristján Arason og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Þegar Einar Þorsteinn Ólafsson leikur sinn fyrsta HM leik í næsta mánuði bætist fjórða feðgaparið við. Einar Þorsteinn er sonur Ólafs Stefánssonar, sjöfalds HM-fara.
- Atli Hilmarsson slær reyndar aðra út með þeirri staðreynd að dóttir hans, Þorgerður Anna, lék með íslenska landsliðinu á HM 2011 í Brasilíu.
- Auglýsing -