Sveinn Jóhannsson er 25 ára gamall línu- og varnarmaður hjá norska meistaraliðinu Kolstad í Þrándheimi. Hann var kallaður inn í íslenska landsliðið í gærkvöld vegna meiðsla Arnars Freys Arnarsson og kemur til móts við liðið í Kristiansand í Svíþjóð í dag. Hann hefur leikið 14 landsleiki og skorað í þeim 24 mörk.
Fjölnismaður sem fór til Danmerkur
Sveinn gekk til liðs við Kolstad í sumar að lokinni eins og hálfs árs vist hjá GWD Minden í Þýskalandi. Sveinn lék upp yngri flokka með Fjölni og upp í meistaraflokk en gekk til liðs við ÍR 2018 og var í eitt ár uns hann flutti til Danmerkur og samdi við SönderjyskE.
Eftir veruna hjá SönderjyskE sumarið 2022 gekk Sveinn til liðs við Skjern í lok þess árs en staldraði stutt vegna tilboðs sem barst frá GWD Minden snemma árs 2023. Hjá Minden var Sveinn í hálft annað ár eins og áður sagði.
Í stóra hópnum 2019
Sveinn var valinn í 28 manna hópinn fyrir HM 2019 en var ekki í endanlegum hóp sem tók þátt. Árið eftir var Sveinn í landsliðshópnum sem tók þátt í EM 2020 í Svíþjóð og var með í tveimur leikjum og skoraði eitt mark. Var það hans fyrsta stórmót með A-landsliðinu.
Meiddist fyrir EM 2022
Sveinn kom á ný inn í landsliðshópinn vorið 2021 þegar íslenska landsliðið tryggði sér sæti í lokakeppni EM 2022. Hann var í æfingahópnum í janúar 2022 áður en farið var til Búdapest. Nokkrum dögum fyrir brottför meiddist Sveinn alvarlega á hné og átti í þeim meiðslum mánuðum saman. M.a. varð ekkert úr samningi hans við þýska liðið HC Erlangen af þessum sökum.
Valinn á ný í nóvember
Í nóvember á síðasta ári var Sveinn valinn á ný í landsliðið eftir nærri þriggja ára fjarveru vegna leikja við Bosníu og Georgíu í undankeppni EM 2026 og tók þátt í báðum leikjum.
A-landslið karla – fréttasíða.