Stjórn norska meistaraliðsins Vipers Kristiansand hefur ákveðið að leggja félagið niður og sækja um gjaldþrotaskipti. Keppnisleyfi félagsins hefur verið afturkallað. Svipuð yfirlýsing var gefin úr í haust en síðan afturkölluð nokkrum dögum síðar. Nú mun vera um endanlega ákvörðun að ræða því staða liðsins er hreint ómöguleg fjárhagslega.
Þrátt fyrir að komið hafi verið með talsvert fjármagn inn í félagið í lok október er það langt frá því að nægja eins og staðan er. Útistandandi skuldir nema ennþá tugum milljóna króna íslenskra. Sjá stjórnendur alls ekki til lands.
Vipers Kristiansand vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð 2021, 2022 og 2023, til viðbótar við að vinna norsku deildina sjö ár í röð og bikarkeppnina jafn oft á síðustu átta árum.
Margar af fremstu handknattleikskonum Noregs og Evrópu léku með Vipers. Einna þekktastar af núverandi leikmönnum erKatrine Lunde og Silje Solberg, markvarðapar nýkrýndra Evrópumeistara Noregs.
Ein íslensk handknattleikskona hefur leikið með Vipers, Þórey Rósa Stefánsdóttir. Hún lék með liði félagsins í fjögur ár frá 2013 til 2017.