- Auglýsing -
- Forráðamenn þýska landsliðsins eru vongóðir um að meiðsli sem Juri Knorr varð fyrir í upphafsleik HM í gær gegn Póllandi séu ekki alvarleg og hann geti tekið þátt í næstu leikjum landsliðsins á mótinu. Þýska landsliðið mætir Sviss annað kvöld.
- Norðmenn eru með böggum hildar eftir tap fyrir brasilíska landsliðinu, 29:26, á heimavelli í fyrstu umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í gærkvöld. Norskir fjölmiðlar spara síst stóru orðin í dag enda gerði tapið nánast út um vonir norska landsliðsins að fara með fullt hús stiga í milliriðil. Sander Sagosen fær afar harða gangrýni víða fyrir frammistöðu sína en hann lagði upp níu mörk og skoraði þrisvar. Norska landsliðið mætir bandaríska landsliðinu annað kvöld.
- Þremur leikmönnum argentínska landsliðsins var sýnt rautt spjald í viðureigninni við Egyptaland í fyrstu umferð H-riðils í Zagreb Arena í gær. Ósennilegt er þó að einhver þeirra verði í leikbanni á morgun þegar Argentína mætir Króatíu í annarri umferð.
- Norður Makedóníumenn komu mörgum á óvart með jafntefli við Ungverja, 27:27, í fyrstu umferð í D-riðli í Varaždin í Króatíu í gær. Ungverjar höfðu unnið fimm síðustu leiki gegn Norður Makedóníu og höfðu auk þess verið á flugi í vináttuleikjum fyrir HM. Þegar upp var staðið reyndist ungverska liðið heppið að ná jafntefli. Norður Makedóníumenn voru með boltann skömmu fyrir leikslok marki yfir. Þeir töpuðu hinsvegar boltanum klaufalega og Patrik Ligetvari skoraði jöfnunmarkið og tryggði ungverska liðinu jafntefli.
- Í sama riðli vann Holland stórsigur á Gíneu, 40:23. Gíneumenn höfnuðu í fimmta sæti á Afríkumótinu í fyrra og eru með á HM í fyrsta sinn.
- Þrátt fyrir meiðsli Rasmus Lauge og Thomas Arnoldsen hefur Nikolaj Jacobsen þjálfari heimsmeistara Danmerkur ekki í hyggju að kalla inn varamenn. Hann vonast til að þeir jafni sig auk þess sem hann reiknar með að Danir verði ekki í teljandi vandræðum með Túnisbúa og Ítali í tveimur síðustu leikjum riðlakeppni HM.
- Á hinn bóginn er líklegt að Jacobsen verði að kalla inn annan markvörð í hópinn á næstu dögum. Eiginkona Kevin Møller á von á barni þá og þegar, eftir því sem danskir fjölmiðlar segja frá.
- Auglýsing -