Michaël Guigou og Nikola Karabatic eru á leiðinni á sína fimmtu Ólympíuleika með franska landsliðinu í handknattleik. Þeir eru báðir í 15 leikmannahópi sem Guillaume Gille, landsliðsþjálfari, tilkynnti í morgun og leikur fyrir hönd Frakklands í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna sem hefst í Tókýó síðar í þessum mánuði.
Guigou og Karabatic bætast þar með í hóp með rússneska markverðinum og Andrei Lavrov og Suður-Kóreubúanum, Yoon Kyung-shin, sem einnig tóku fimm sinnum þátt í handknattleikskeppni Ólympíuleika sem leikmenn landsliða sinna.
Karabatic er nýlega kominn á ferðina aftur eftir að hafa slitið krossband í hné í haust sem leið. Hann var í kappi við tímann að ná síðustu leikjum tímabilsins með PSG til þess að sanna að hann ætti heima í franska landsliðinu á Ólympíuleikunum.
Einnig vekur athygli að hornamaðurinn Luc Abalo er í franska landsliðinu. Sem stendur er hann án félags eftir að hafa lítið sem ekkert leikið með Elverum eftir áramót. Sem stendur fær hann ekki nýjan samning hjá norska liðinu og óvíst hvað tekur við hjá hornamanninu lipra eftir Ólympíuleikana. Abalo er á leið á sína fjórðu leika.
Markverðir:
Vincent Gerard, PSG.
Yann Genty, PSG.
Aðrir leikmenn:
Michaël Guigou, Nimes.
Hugo Descat, Montpellier HB.
Nikola Karabatic, PSG.
Timothey N`Guessan, Barcelona.
Kentin Mahé, Telekom Veszprém.
Nedim Remili, Paris Saint-Germain.
Dika Mem, FC Barcelona.
Melvyn Richardson, Montpellier HB.
Luc Abalo, Elverum.
Valentin Porte, Montpellier HB.
Luka Karabatic, PSG.
Ludovic Fabregas, FC Barcelona.
Nicolas Tournat, Lomza Vive Kielce.
Til vara:
Remi Desbonnet, Nîmes.
Romain Lagarde, PAUC.