Stórleikur markvarðarins Andreas Wolff gerði tvímælaust gæfumuninn fyrir þýska landsliðið í gærkvöld þegar það lagði Sviss, 31:29, í annarri umferð A-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik í Herning á Jótlandi. Wolff fór á kostum og varði 20 skot, 42% hlutfallsmarkvarsla. Með sigrinum tryggði þýska liðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, sér sæti í milliriðlakeppninni mótsins.
Síðasti leikur Þýskalands í riðlakeppninni verður á morgun, sunnudag, gegn Tékklandi sem gerði annað jafntefli í gærkvöld, að þessu sinni við Pólverjar, 19:19. Tékkar hafa ekki verið sókndjarfir í tveimur fyrstu leikjum sínum og aðeins skoraði 36 mörk.
Eftir stórtap fyrir Þýskalandi í upphafsleik EM fyrir ári þá voru leikmenn Sviss betur stemmdir í gær. Áttu þeir í fullu tré við þýska liðið frá byrjun til enda. Aðeins eins marks munur var á liðunum þegar fyrri hálfleikur var að baki, 15:14, Þjóðverjum í vil.
„Við lékum ekki vel í leiknum fyrr en síðasta stundarfjórðunginn,“ sagði Alfreð þjálfari þýska landsliðsins í samtali við ZDF í leiksloka. Johannes Golla fyrirliði sagði að frammistaða Wolff hafi tryggt þýska liðinu sigurinn. Wolff varði m.a. níu langskot og átta skot frá hornamönnum Sviss.
Julian Köster skoraði sjö mörk fyrir þýska liðið og var markahæstur. Renars Uscins var næstur með sex mörk en slaka skotnýtingu, innan við 50%. Lenny Rubins skoraði sjö mörk fyrir Sviss og Felix Aellen var næstur með sex mörk.
Þýskaland hefur fjögur stig í A-riðli, Tékkland tvö, Pólland og Sviss eitt hvort.
HM “25: Leikjadagskrá, úrslit, staðan