- Auglýsing -
- Sandra Erlingsdóttir skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar þegar lið hennar, TuS Metzingen vann Buxtehuder SV, 38:35, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Metzingen situr í sjöunda sæti deildarinnar með 13 stig eftir 13 leiki. Meistarar Ludwigsburg eru efstir með 22 stig að loknum 12 leikjum, stigi á undan Dortmund sem lokið hefur 13 viðureignum.
- Elías Már Halldórsson fagnaði fyrsta sigri sínum sem þjálfari í Evrópudeildinni í handknattleik kvenna í gær þegar lið hans, Fredrikstad Bkl. lagði Paris 92, 28:26, í annarri umferð riðlakeppni 16-liða úrslita. Leikið var í Issy-Les-Moulineaux í Frakklandi. Paris 92 hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í riðlinum. Paris 92 var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14.
- Þýska liðið Bensheim/Auerbach er efst í D-riðli með fjögur stig eftir tvær umferðir. Spænsku meistararnir Super Amara Bera Bera og Fredrikstad Bkl hafa tvö stig hvort. Paris 92 rekur lestina án stiga.
- Aldís Ásta Heimisdóttir og samherjar í Skara HF halda áfram að gera það gott í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Skara vann VästeråsIrsta HF á útivelli í gær, 30:25. Aldís Ásta skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Skara er í þriðja til fjórða sæti ásamt Önnereds með 16 stig. Skara hefur leikið einum leik fleira en Gautaborgarliðið. Sävehof og Skuru IK er efst með 21 stig hvort.
- Á föstudagskvöld tapaði Kristianstad HK á heimavelli fyrir Sävehof, 28:23, í sænsku úrvalsdeildinni. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði þrjú af mörkum Kristianstad og gaf eina stoðsendingu. Berta Rut Harðarsdóttir skoraði ekki að þessu sinni.
- Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Ringsted þegar liðið tapaði illa fyrir AGF Håndbold, 42:24, í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. Ringsted er nú fallið niður í næst neðsta sæti deildarinnar með sjö stig í 13 leikjum. AGF er í fjórða sæti.
- Auglýsing -