„Þeir eru gríðarlega góðir og hafa leikið mjög vel á síðustu mótum, taktískt góðir og með flottann mannskap,“ segir Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik um andstæðinga íslenska landsliðsins í lokaleik riðlakeppni heimsmeistaramótsins í kvöld, landslið Slóvena.
Viðureign Íslands og Slóveníu hefst klukkan 19.30 í Zagreb Arena. Úrslit leiksins ráða töluverðu um framhaldið íslenska liðsins í keppninni og ekki að ósekju að stundum sé sagt að um sé að ræða fyrsta leik í milliriðlakeppni HM.
Tveir hættu eftir ÓL
Slóvenar höfnuðu í fjórða sæti handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í sumar eftir eins marks tap fyrir Spánverjum, 23:22. Eftir leikana ákváðu Jure Dolenec og Dean Bombac að hætta með landsliðinu. Að öðru leyti er um nánast sama hóp að ræða hjá Slóvenum á HM og var ÓL.
Vel samæfðir
„Þeir þekkja vel til hvers annars, eru vel samæfðir og leika mikið með klippingum. Einnig geta þeir bombað fyrir utan, erum með góðar skyttur. Einnig eru miðjumennirnir mjög klókir,“ segir Elvar Örn ennfremur og ljóst að mikið mun mæða á honum og öðrum varnarmönnum íslenska landsliðsins í leiknum í kvöld.
Úrslitaleikur riðilsins
„Þetta er úrslitaleikur í riðlinum og við viljum að sjálfsögðu vinna og fara í milliriðla með hámarksfjölda stiga. Það væri mjög gott og er okkar markmið. Við höfum beðið eftir þessum leik,“ segir Elvar Örn.
Lengra viðtal við Elvar Örn er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Sjá einnig: Zorman velur hópinn sem mætir Íslandi – tveir reynslumenn fjarverandi