Snorri Steinn Guðjónsson segir hafa ásamt samstarfsmönnum sínum í þjálfarateymi landsliðsins farið yfir fjölda leikja með Slóvenum frá síðustu mánuðum til þess að búa sig og landsliðið sem best undir viðureignina í kvöld.
„Á því hefur verið full þörf vegna þess að um frábært lið er að ræða. Undirbúningurinn er mikið meiri en fyrir tvo fyrstu leikina í riðlinum,“ segir Snorri Steinn í samtali við handbolta.is í Zagreb.
Viðureign Íslands og Slóveníu hefst klukkan 19.30 í kvöld í Zagreb Arena. Úrslitin munu ráða því hvað liðin tvö taka með sér mörg stig í milliriðil.
Skemmtilegustu leikirnir
„Þetta eru skemmtilegustu og mikilvægustu leikirnir á móti sem þessu. Við erum þegar komnir með tvö stig til þess að taka mér okkur inn í milliriðil, ekki má gleyma því. En þótt þetta sé úrslitaleikur í riðlinum þá snýst hann samt ekki um líf eða dauða. Einnig má líta á viðureignina sem fyrsta leik í milliriðlakeppninni. Þetta horfir svolítið þannig við mér, tvö mjög mikilvæg stig í boði,“ segir Snorri Steinn.
Mikilvægur en hann gerir ekki allt
Snorri Steinn segir ljóst að mikilvægt hafi verið að fá Aron Pálmarsson inn í liðið fyrir leikinn. Aron er mikilvægur leikmaður og einnig veigamikill leiðtogi liðsins utan vallar sem innan.
„Við getum ekki hallað okkur aftur í stólnum af því að Aron er kominn. Hann er nýlega stiginn upp úr meiðslum og þar af leiðandi er ekki hægt að ætlast til þess að hann leiki með í 60 mínútur og taki alla ábyrgð. Ég vil bara að hann haldi áfram að sinna sínu hlutverki og geri það vel. Aðrir geta ekki beðið á meðan ætlast er til þess að Aron sjáum allt fyrir okkur,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla.
Lengra viðtal við Snorra Stein er í myndskeiði ofar í þessari grein.
A-landslið karla – fréttasíða.