Ingvar Dagur Gunnarsson hefur skrifað undir samning við handknattleiksdeild FH sem gildir til 2027. Ingvar Dagur er á nítjánda aldursári og hefur komið gríðarlega sterkur inn FH-liðið á tímabilinu og vakið athygli fyrir vaska framgöngu í varnarleik liðsins.
Ingvar Dagur, sem hefur átt fast sæti í yngri landsliðum Íslands, varð fyrir því óláni að fótbrotna við vinstri ökkla á æfingu 19 ára landsliðsins rétt fyrir jól og verður af þeim sökum frá keppni út tímabilið.
„Um leið og við óskum Ingvari Degi góðs bata þá hlökkum við til að fá hann á völlinn aftur, sterkari sem aldrei fyrr,“ segir í tilkynningu frá handknattleiksdeildar FH í gær.
Í fyrradag sagði FH frá því að Garðar Ingi Sindrason hafi skrifað undir nýjan samning.