„Ég er þreyttur en hrikalega ánægður með að hafa klárað þetta. Leikurinn var erfiður. Það er snúið að ná góðu forskoti gegn liði sem leikur hægt og er öflugt á boltanum. Okkur tókst að fá þá til að gera nokkur mistök. Niðurstaðan leiksins er sú að ég er ógeðslega ánægður,“ segir Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins sem fór á kostum í kvöld í sigri á Egyptum, 27:24, í fyrstu umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Zagreb Arena.
„Við erum að fíla þetta eins og stemningin er núna en mótinu er alls ekki lokið. Það er nóg eftir,“ segir Aron og bætir við að sjálfstraustið sé fyrir hendi innan liðsins en á sama tíma séu menn ekkert að fara fram úr sér. Vindarnir geta fljótt breyst á löngu móti þar sem hver leikur er mikilvægur.
„Augljóslega hefur leikplanið okkar verið að virkað en það virkar ekki ef menn eru ekki gjörsamlega all inn þegar þeir eru inn á vellinum. Það er enginn að bora í nefið,“ sagði fyrirliðinn og glotti við tönn.
Spurður hvernig honum liði nú þegar hann fari á kostum segist Aron elska það. „Maður vill alltaf spila hvern leik frá upphafi til enda. Á móti kemur að maður verður líka að sýna skynsemi, fara ekki framúr sér. Bensinlaus maður hjálpar ekki liðinu,“ segir Aron.
Lengra viðtal er við Aron er hér fyrir ofan.