„Mestur munurinn frá síðustu leikjum okkar á mótinu er að nú mætum við heimaþjóð sem fær væntanlega mikinn stuðning og marga áhorfendur með sér á leik sem skiptir miklu máli. Það er mikið í húfi fyrir Króata í þessum leik,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson í samtali við handbolta.is sem tekið var upp í gær vegna leiksins við Króata í annarri umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í kvöld. Leikur Króatíu og Íslands hefst klukkan 19.30 í Zagreb Arena.
„Sannarlega skiptir þessi leikur okkur líka miklu máli en Króatar eru meira með bakið upp við vegg en við,“ segir Snorri Steinn.
„Við verðum að búa okkur undir gríðarleg læti, mikla ákefð og passion. Stemningin verður góð. Við verðum klárir í slaginn, ef ekki þá munu Krótatar ganga á lagið og ná sínum vopnum fram. Okkar hlutverk verður meðal annars að sjá til þess að svo verði ekki,“ segir Snorri Steinn.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Snorra Stein er hér fyrir ofan.
Viðtalið var tekið áður en Snorri Steinn varð að gera breytingu á landsliðshópnum í gærkvöld. Tilkynnt var opinberlega í morgun að Stiven Tobar Valencia komi inn í landsliðið í dag í stað Bjarka Más Elíssonar sem er meiddur.