- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍR krækti í tvö dýrmæt stig – Haukar unnu á Ásvöllum

Katrín Tinna Jensdóttir, skoraði sigurmark ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -


ÍR vann sér inn tvö afar dýrmæt stig í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag með sigri á Gróttu, 25:24, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í jöfnum og afar spennandi leik. Að sama skapi sá Gróttu eftir stigunum tveimur sem liðið þurfti svo sannarlega á að halda í neðsta sæti deildarinnar. Á sama tíma áttu Haukar fullt í fangi með ÍBV á Ásvöllum en tókst að vinna með þriggja marka mun, 32:29, og setjast í annað sæti deildarinnar, a.m.k. í bili.


Grótta og ÍBV er þar með áfram í tveimur neðstu sætunum en ÍR fjarlægðist aðeins neðstu liðin tvö, hefur níu stig, þremur fleira en ÍBV sem er næst neðst.

Spenna í Hertzhöllinni

Grótta var þremur mörkum yfir í hálfleik gegn ÍR. Fljótlega í síðari hálfleik tókst ÍR-ingum að komast yfir, 19:18, og halda yfirhöndinni það sem eftir var. Um skeið var þriggja marka munur, 24:21. Grótta náði að jafna metin, 24:24, með marki Katrínar Helgu Sigurbergsdóttir rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok. Eftir það fengu liðin hvort sína sóknina til að skora en tókst ekki.

Katrín Tinna Jensdóttir skoraði 25. mark ÍR eftir hraðaupphlaup 75 sekúndum fyrir leikslok. Ingunn María Brynjarsdóttir, markvörður ÍR, varði skot af línu 45 sekúndum fyrir lok leiksins. Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR tók leikhlé þegar hálf mínúta var eftir. Upp úr hléinu fengu leikmenn ÍR opið færi til að gulltryggja sér sigurinn. Allt kom fyrir ekki. Skot hafnaði í stöng Gróttumarksins. Á þeim fáu sekúndum sem eftir voru reyndi Grótta að skora jöfnunarmarkið en lánaðist það ekki.


Eftir erfiða leiki upp á síðkastið þá tókst ÍBV aðeins að sauma að Haukum í síðari hálfleik á Ásvöllum í dag. Minnstur var munurinn hvað eftir annað tvö mörk á síðasta stundarfjórðungnum. Nær komst ÍBV-liðið ekki og Haukar fögnuðu sigri.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.


Grótta – ÍR 24:25 (16:13).
Mörk Gróttu: Ída Margrét Stefánsdóttir 8/1, Karlotta Óskarsdóttir 5, Katrín S. Thorsteinsson 4, Katrín Arna Andradóttir 2, Rut Bernódusdóttir 2, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 2, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 4, 30,8% – Andrea Gunnlaugsdóttir 2, 11,1%.
Mörk ÍR: Sylvía Sigríður Jónsdóttir 7/5, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 4, Matthildur Lilja Jónsdóttir 4, Katrín Tinna Jensdóttir 3, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Sara Dögg Hjaltadóttir 2, Vaka Líf Kristinsdóttir 1, Anna María Aðalsteinsdóttir 1, Hanna Karen Ólafsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 8, 50% – Hildur Öder Einarsdóttir 6/1, 27,3%.

Tölfræði HBStatz.

Haukar – ÍBV 32:29 (16:14).
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/1, Sara Odden 6, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 5, Alexandra Líf Arnarsdóttir 4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2, Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Berglind Benediktsdóttir 1, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 7, 25,9% – Elísa Helga Sigurðardóttir 4, 30,8%.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 9/3, Britney Cots 4, Sunna Jónsdóttir 4, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 3, Ásdís Halla Hjarðar 3, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 2, Birna Dögg Egilsdóttir 1, Birna María Unnarsdóttir 1.
Varin skot: Bernódía Sif Sigurðardóttir 7, 20% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 3, 42,9%.


Tölfræði HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -