Karlalandsliðið í handknattleik fellur um eitt sæti á nýjum styrkleikalista sem Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur uppfært og gefið út eftir að heimsmeistaramóti karla lauk á sunnudaginn. Ísland er í 9. sæti en var í 8. sæti fyrir ári og hafði þá hækkað um eitt sæti frá árinu 2023. Íslenska landsliðið er þar með á sama stað og fyrir tveimur árum.
Mikið stökk Króata upp listann færir Ísland niður um eitt. Króatar voru í 9. sæti fyrir ári en eru nú í 5. sæti eftir frábæran árangur á heimsmeistaramótinu. Króatíska liðið lék til úrslita við Dani um heimsmeistaratitilinn.
Spánverjar falla úr 5. sæti niður í 10. sæti meðan Portúgal er í 7. sæti eftir að hafa verið í 11. sæti fyrir ári. Portúgal varð í fjórða sæti á HM á síðasta sunnudag. Noregur fellur um 6. sæti niður í 8. sæti. Ungverjar færast upp um eitt sæti í það sjötta. Slóvenar falla um eitt stig niður í 11. sæti.
Heimsmeistarar Danmerkur eru í efsta sæti eins og undanfarin ár og Frakkar eru í öðru sæti. Þýskaland er í þriðja sæti, hefur sætaskipti við Svía sem færast niður í fjórða sæti.
Hér fyrir neðan eru tíu efstu þjóðir á styrkleikalista Evrópuþjóða í handknattleik karla. Innan sviga er sætið á listanum fyrir ári:
1. Danmörk (1).
2. Frakkland (2).
3. Þýskaland (4).
4. Svíþjóð (3).
5. Króatía (9).
6. Ungverjaland (7).
7. Portúgal (11).
8. Noregur (6).
9. Ísland (8).
10. Spánn (5).
Spánverjum hefur vegnað illa á tveimur þeirrra móta sem talin eru til stiga (EM2024, EM2025) og því er fall þeirra mikið. Árangur á Ólympíuleikum er ekki talinn með vegna þess að ekki taka allar Evrópuþjóðir þátt.
Alls eru 50 Evrópuþjóðir á listanum sem er að finna hér fyrir neðan.