Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, hafnaði í fimmta sæti í B-deild Evrópumótsins í dag eftir sigur á Norður Makedóníu í háspennuleik þar sem úrslitin réðust í vítakeppni, 32:30. Ísland var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi og vann verðskuldaðan sigur þrátt fyrir að hafa misst taktinn á lokakaflanum með þeim afleiðingum að liði Norður Makedóníu lánaðist að jafna á síðustu sekúndum, 28:28.
Ekki var framlengt heldur farið beint í vítakeppni þar sem taugar leikmanna íslenska liðsins reyndust sterkari. Íslensku stúlkurnar skoruðu úr fjórum af af fimm vítaköstum á sama tíma og tvö vítaköst geiguðu hjá liðsmönnum Norður Makedóníu.
Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og skoraði t.d. fjögur af fyrstu fimm mörkunum. Fimm einn vörnin sló leikmenn Norður Makedóníu út af laginu. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var forskot íslenska liðsins fjögur mörk, 9:5. Eftir það komst heimaliðið meira inn í leikinn og tókst að jafna, 11:11, og aftur 12:12. Lokakafli hálfleiksins var íslenska liðsins og það var þremur mörkum yfir að honum loknum, 16:13.
Framan af seinni hálfleik lék allt í lyndi hjá íslenska liðinu. Það var með fjögurra til sex marka forystu. Íslenska liðinu gekk treglega að skora á síðustu tíu mínútunum. Liðið gerði aðeins eitt mark gegn sjö og staðan var jöfn, 28:28, þegar leiktíminn var úti. Norður Makedónía jafnaði á síðustu sekúndu. Við tók vítakeppni þar sem leikmenn íslenska landsliðsins skoruðu úr fjórum af fimm vítaköstum en andstæðingarnir aðeins úr þremur. Signý Pála Pálsdóttir, markvörður, sló leikmenn Norður-Makedóníu út af laginu svo þeim brást bogalistin.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir, Ída Margrét Stefánsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir skoruðu allar af öryggi úr vítaköstum sínum.
Mörk Íslands: Rakel Sara Elvarsdóttir 9/1, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 8/4, Elín Rósa Magnúsdóttir 7/1, Ída Margrét Stefánsdóttir 2/1, Bríet Ómarsdóttir 2, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 2.
Varin skot: Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 10.
- Molakaffi: Claar, Carstens, Ilic, Kaufmann, Blonz
- HM “25: Leikjdagskrá, úrslit, staðan
- Myndasyrpa frá æfingu í Zagreb
- Meistararnir byrjuðu titilvörnina með sýningu – Ítalir í góðum málum
- Hilmar lætur af starfi yfirþjálfara yngri flokka