- Auglýsing -
- Til skoðunar er hjá sveitarfélaginu Svendborg á Fjóni að nefna götu eftir Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfara fjórfaldra heimsmeistara Danmerkur. Einnig kemur til greina að reisa styttu af landsliðsþjálfaranum sem er afar vinsæll í Danmörku. Jacobsen á heima í Svendborg. Ekki þarf að taka fram að Jacobsen er fyrir löngu orðinn Dannebrogsmaður. Dannebrogsorðunni má líkja við íslensku fálkaorðuna.
- Jonas Wille landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik karla er hvergi af baki dottinn þótt árangur norska landsliðsins hafi verið undir væntingum á HM en landsliðið hafnaði í 10. sæti. Tap fyrir Brasilíu í fyrstu umferð riðlakeppni mótsins reyndist norska landsliðinu dýrt þegar upp var staðið. Wille, sem tók starfi landsliðsþjálfara fyrir hálfu þriðja ári, segir sigra á Spánverjum og Svíum hafa verið góðir og undirstrikað hvað í norska landsliðinu býr. Efniviður er talsverður og fleiri leikmann taki ábyrgð á síðustu árum.
- Goran Perkovac, forveri Dags Sigurðsson í stól landsliðsþjálfara Króatíu, hefur tekið við þjálfun á íraska landsliðinu. Hann á að búa liðið sem best undir þátttöku á Asíumeistaramótinu sem fram fer í janúar á næsta ári. Talsverður áhugi er fyrir handknattleik víða í Írak og hefur karlalandsliðið tekið þátt í nokkrum landsliðamótum í Asíu á síðustu árum.
- Auk þess að þjálfa landslið Króatíu var hinn 62 ára gamli Króati einnig með landslið Sviss og Grikklands um árabil. Sem leikmaður var Perkovac öflugur og lék m.a. fyrir landslið Júgóslavíu og Króatíu en lengi vel lék hann með félagsliðum í Sviss.
- Ljóst þykir orðið að sænski línumaðurinn Oscar Bergendahl verður lengur frá keppni en þá þrjá mánuði sem reiknað var með þegar hann meiddist á ökkla í kappleik með Magdeburg viku fyrir jól. Svo kann að fara að Bergendahl verði úr leik fram undir lok leiktíðarinnar í vor.