„Það er erfitt að skýra svona hrun nema sem andlegt hrun. Eftir frábæran fyrri hálfleik þá leyfa þeir sér að slaka á síðari hálfleik og halda að sigurinn sé í höfn. Við bara mættum ekki í síðari hálfleikinn, að minnsta kosti andlega vorum við ekki á staðnum,“ segir Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar eftir tap fyrir Fram, 34:32, í Olísdeild karla í Lambhagahöllinni síðdegis. Aftureldingarliðið tapaði síðari hálfleik, 21:12, þegar ekki stóð steinn yfir steini.
Alveg ótrúlegt
„Það var hreint ótrúlegt að vera vitni að þessu og hef ég verið lengi í þjálfun,“ sagði Gunnar sem verður vafalaust næstu daga að velta fyrir sér hvað nákvæmlega gerðist hjá Aftureldingarliðinu sem hafði leikið við hvern sinn fingur í fyrri hálfleik.
„Ég velti bara fyrir mér hvað menn voru að hugsa eftir að við höfðum farið vel yfir málin í hálfleik verandi sjö mörkum yfir. Mannskepnan er stundum einföld,“ sagði Gunnar og bætti við að ekki mætti gleyma því að leikmenn Fram hafi sótt mjög í sig veðrið. Breki Hrafn Árnason varði allt hvað af tók í markinu og Reynir Þór Stefánsson var frábær í sóknarleiknum.
Verða að hugsa sinn gang
„Ef menn vilja einhvern tímann vinna eitthvað þá verða menn að hugsa um stöðu sína og mæta með annan hugsunarhátt til leiks en gert var í síðari hálfleik,“ segir Gunnar Magnússon þjálfari karlaliðs Aftureldingar.
Lengra viðtal við Gunnar er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Ótrúleg kaflaskipti í Lambhagahöllinni – Fram er komið upp að hlið FH