- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar í pólska meistaraliðinu Wisla Plock komust í gær í undanúrslit pólsku bikarkeppninnar með stórsigri á PGE Wybrzeże Gdańsk, 36:22, á heimavelli. Viktor Gísli stóð vaktina í marki Wisla Plock en þrátt fyrir ítarlega umfjöllun um leikinn á heimasíðu félagsins er tölfræði markvarða af skornum skammti.
- Óðinn Þór Ríkharðsson átti afar góðan leik fyrir Kadetten Schaffhausen í gærkvöld, skoraði níu mörk, þegar liðið tapaði fyrir HC Kriens, 28:25, í undanúrslitum bikarkeppninnar í Sviss. Leikið var á heimavelli HC Kriens.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk og Sveinn Jóhannsson þrjú mörk þegar lið þeirra, Kolstad, vann Fjellhammer, 29:22, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Bræðurnir Arnór Snær Óskarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson skoruðu ekki fyrir Kolstad í leiknum.
- Benedikt Gunnar sýndi hinsvegar útsjónarsemi og gaf sjö stoðsendingar. Sigvaldi Björn átti tvær stoðsendingar. Kolstad er í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 34 stig eftir 19 leiki, er stigi fyrir ofan Elverum sem á leik til góða.
- Ísak Steinsson varði eitt skot af tíu þann tíma sem hann var í marki Drammen í sigurleik á útivelli gegn Kristiansand TH, 34:27, í gær í norsku úrvalsdeildinni. Drammen er í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig eins og Runar og Nærbø sem eiga leik til góða.
- Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tvö mörk úr tveimur skotum þegar Porto vann Belenenses, 41:33, á heimavelli í gær í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik. Þorsteinn Leó virðist hafa verið sparlega notaður í leiknum. Porto er ásamt Sporting í öðru af tveimur efstu sætum deildarinnar. Hvort lið hefur 54 stig að loknum 18 umferðum.
- Stiven Tobar Valencia skoraði þrisvar fyrir Benfica í öruggum sigri liðsins á Águas Santas Milaneza, 34:24, í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Lissabon. Benfica er í þriðja sæti deildarinnar með 51 stig að loknum 19 leikjum.
- Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk og gaf sex stoðsendingar fyrir Ribe-Esbjerg þegar tvö neðstu lið dönsku úrvalsdeildarinnar, Grindsted og Ribe-Esbjerg skildu jöfn, 27:27, á heimavelli Grindsted í gær.
- Ágúst Elí Björgvinsson átti fínan leik í marki Ribe-Esbjerg þá stund sem hann fékk tækifæri. Ágúst Elí varði átta skot, þar af tvö vítaköst, 35%.
- Guðmunudur Bragi Ástþórsson skoraði þrjú mörk, öll úr vítaköstum, þegar Bjerringbro/Silkeborg tapaði fyrir Aalborg Håndbold, 29:26, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Bjerringbro/Silkeborg er í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig eftir 18 leiki.
- Janus Daði Smárason og liðsfélagar í Pick Szeged unnu Tatabánya, 32:30, á útivelli í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Selfyssingurinn skoraði ekki marki í leiknum. Pick Szeged er í öðru sæti deildarinnar með 26 stig eftir 14 leiki eins og Veszprém sem stendur betur að vígi en Szeged vegna sigurs í innbyrðisviðureign liðanna í vetur.