- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kjósum að vera heima við æfingar og nýta tímann vel

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari og leikmenn landsliðsins fagna á EM undir lok síðasta árs. Stefnan hefur verið sett á HM í Þýskalandi og Hollandi í desember. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Við fáum viku saman við æfingar og þann tíma verðum við að nýta eins vel og kostur er áður en kemur að leikjunum við Ísrael í umspili um HM-sæti mánuði síðar sem eru mikilvægir leikir fyrir okkur til að komast inn á næsta stórmót,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við við handbolta.is eftir að hann valdi 22 leikmenn til æfinga vikuna 3. til 9. mars.

Óvenju fjölmennur hópur

Arnar valdi óvenju fjölmennan æfingahóp. Hann segir að margt komi þar til. Meðal annars er Díana Dögg Magnúsdóttir meidd, Sunna Jónsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir hafa ákveðið að láta gott heita með landsliðinu eftir langan feril. Einnig hefur verið mikið álag á leikmönnum, bæði hér heima vegna þátttöku liða í Evrópukeppni, og á þeim sem leika utanlands eins og Andreu Jacobsen. Hún hefur leikið tvo leiki í viku upp á síðkastið eftir að hún steig upp úr ökklameiðslum. Meiðslum sem hún hefur ekki jafnað sig fyllilega á ennþá.

Ungir leikmenn

„Það eru fleiri ástæður fyrir að ég vel stærri hóp en venjulega. Þar á meðal eru ungir leikmenn sem hafa leikið vel í deildinni hér heima og mér finnst áhugavert að kalla inn á þessum tímapunkti þegar við komum saman í fyrsta sinn eftir síðasta stóra verkefni okkar EM,“ sagði Arnar sem m.a. valdi tvær sem ekki hafa leikið landsleiki, Ingu Dís Jóhannsdóttir skyttu úr Haukum og Sonju Lind Sigsteinsdóttur hægri hornakonu úr Haukum sem einnig öflug í vörninni.

Rétti tíminn

„Núna er rétti tímapunkturinn að mínu mati að kalla inn Ölfu Brá Hagalín, Ingu Dís og Sonju Lind og gefa þeim tækifæri til þess að máta sig við það sem við erum að gera,“ sagði Arnar ennfremur.

Löngu ákveðið

Arnar segir að lengi hafi legið fyrir að fara þá leið í næsta landsliðsglugga að nýta tímann til æfinga hér heima í stað þess að fara út og leika tvo æfinga- eða vináttuleiki.

„Við viljum nýta tímann eins og vel og mögulegt er til að stilla saman strengi okkar í stað ferðalaga. Undirbúningurinn fyrir leikina við Ísrael verður ekki svo langur svo það er ágætt að búa okkur sem best undir komandi leiki með æfingum hér heima og fá sem mest úr þeim,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -