Birgir Steinn Jónsson handknattleiksmaður hjá Aftureldingu hefur samið við sænsku meistarana IK Sävehof til þriggja ára. Bæði Sävehof og Afturelding segja frá þessum vistaskiptum í morgun. Birgir Steinn kom til Aftureldingar sumarið 2023 frá Gróttu en einnig hefur hann leikið með Fjölni og Stjörnunni en síðastnefnda liðið er hans uppeldisfélag.
Birgir Steinn hefur skorað 126 mörk í 18 leikjum með Aftureldingu á yfirstandandi leiktíð í Olísdeildinni og er markahæsti leikmaður liðsins. Þar að auki er Birgir Steinn næst stoðsendingahæstur í deildinni þegar litið er til meðaltals. Hann hefur átt fimm stoðsendingar að jafnaði í leik samkvæmt HBStatz. Aðeins Aron Pálmarsson fyrrverandi leikmaður FH er fyrir ofan.
Birgir Steinn var stoðsendingakóngur Olísdeildarinnar leiktíðina 2021/2022 og markahæstur í deildinni 2020/2021 og 2021/2022 að frátöldum vítaköstum.
Sävehof, sem er með bækistöðvar í Partille nærri Gautaborg, varð sænskur meistari á síðasta ári og er eitt sigursælasta liðs sænska handknattleiksins á síðustu árum. Lið félagsins er í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 26 stig eftir 23 leiki, 11 stigum á eftir Ystads IF sem er efst.
Einn Íslendingur er þegar í herbúðum Sävehof, Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson.