Elín Klara Þorkelsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður nýkrýndra bikarmeistara Hauka hefur samið við sænska meistaraliðið IK Sävehof til þriggja ára. Sænska liðið sagði frá vistaskiptunum í morgun en þau taka gildi í sumar að loknu keppnistímabilinu.
Elín Klara er tvítug en hefur þrátt fyrir ungan aldur verið kjölfesta í meistaraflokksliði Hauka undanfarin ár. Hún var valin besti leikmaður Olísdeild kvenna 2023 og 2024 og sú efnilegasta í sömu deild 2022 og 2023.

Um þessar mundir er Elín Klara næst markahæst í Olísdeild kvenna 129 mörk auk þes að vera sú sem átt hefur flestar stoðsendingar leikmanna deildarinnar, 78, samkvæmt tölfræðiveitunni HBStatz. Einnig varð Elín Klara markahæst í Olísdeildinni leiktíðina 2023/2024 og þriðja markahæst leiktíðina á undan.
Undanfarin tvö ár hefur Elín Klara átt sæti í íslenska landsliðinu og leiki 21 leik og skoraði 67 mörk.
Elín Klara var valin í úrvalslið heimsmeistaramóts 20 ára kvenna á síðasta ári, fyrst íslenskra kvenna.
Elín Klara er systir landsliðsmannsins Orra Freys Þorkelssonar leikmanns Sporting Lissabon.
IK Sävehof er sautjánfaldur sænskur meistari í kvennaflokki, þar af hefur félagið, sem er með bækistöðvar í Partille, unnið meistaratitilinn þrjú síðustu ár. Um þessar mundir er IK Sävehof í efsta sæti úrvalsdeildinnar. IK Sävehof var síðast með Meistaradeild Evrópu keppnistímabilið 2023/2024.
Birna Berg Haraldsdóttir lék með IK Sävehof 2013 til 2015 og varð á þeim tíma fyrst íslenskra kvenna til þess að taka þátt í Meistaradeild Evrópu.