- Auglýsing -
- Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og liðsmenn finnska landsliðsins unnu Slóvaka, 22:21, í Vantaa í Finnlandi í gærkvöld í þriðju umferð undankeppni EM karla 2026. Þorsteinn Gauti skoraði ekki mark í leiknum. Þar með settust Finnar í 3. sæti 2. riðils undankeppninnar en Slóvakar reka lestina. Ungverjar eru í efsta sæti Svartfellingar í öðru sæti.
- Finnska landsliðið, með Þorstein Gauta innanborðs, mætir slóvakíska landsliðinu í Hlohovec í Slóvakíu á sunnudaginn.
- HK-ingurinn Sigurður Jefferson Guarino skoraði fjögur mörk í átta skotum þegar bandaríska landsliðið lagði landslið Aserbaísjan, 45:25, í þriðju og síðustu umferð riðlakeppni þróunarmóts Alþjóða handknattleikssambandsins í Búlgaríu í gær.
- Eftir þrjá leikdaga á þróunarmótinu verður gefið frí frá kappleikjum í dag. Sigurður og félagar mæta breska landsliðinu á morgun, laugardag. Breska liðið hafnaði í öðru sæti A-riðils á eftir búlgarska landsliðinu. Búlgarar leika á morgun við Nígeríu. Úrslitaleikir mótsins fara fram á sunnudaginn í strandbænum Varna í Búlgaríu.
- Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma viðureign Spánar og Serbíu í 4. riðli undankeppni EM karla á Spáni á sunnudagskvöld. Serbar unnu fyrri viðureignina í Kraljevo í Serbíu í gær, 27:25.
- Kristján Halldórsson verður eftirlitsmaður á landsleik Belga og Lúxemborgara sem fram fer í Hasselt í Belgíu á sunnudaginn. Viðureignin er liður í fjórðu umferð 5. riðils undankeppni EM 2026. Hlynur Leifsson var eftirlitsmaður á fyrri viðureign Lúxemborgara og Belga í Lúxemborg á miðvikudagskvöld.
- Auglýsing -