- Enn eitt stórmótið í handknattleik er komið vel á veg undir styrkri stjórn frændþjóðanna Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Allt virðist upp á punkt og prik enda handknattleikssambönd þjóðanna öllum hnútum kunnug við mótahald af þessu tagi. Reyndar finnst manni sem Danir haldi annað hvert mót þessi árin.
- Síðustu daga hafa Íslendingar verið í Stafangri. Handknattleikskonur við kappleiki, margir vaskir stuðningsmenn og talsverður hópur fjölmiðlafólks. Undirritaður er enn einu sinni svo lánsamur að fá dingla með unga fólkinu í leik og starfi. Einhverjum vafalaust til ama með gamlar tröllasögur farteskinu sem fáir nenna lengur að hlusta á.
- Reikningur hefur aldrei verið mitt sterkast fag en hafi ég ekki skriplað á skötu við samlagningu og núllin ekki ruglað bókhaldið hjá mér eins og kallinum á Ströndum norður á síðustu öld, þá er þetta átjánda stórmótið í handbolta, HM og EM, sem ég nýt þeirra forréttinda að vera á staðnum, eins og einu sinni var í móð að segja.
- Átján mót sem spanna yfir fjóra áratugi. Endist mér og handbolti.is líf og heilsa og Ísland verður á meðal þátttakenda verður haldið upp á 20. stórmótið á EM kvenna að ári liðnu í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi. Það dugar ekkert minna en þriggja landa sýn fyrir slíkan áfanga.
- Í kvöld liggur síðan ljóst fyrir hvort leiðin á þriðjudaginn liggur til Niðarósa og Þrándheims eða til norður Jótlands til hafnarbæjarins Frederikshavn. (Friðrikshöfn?). Íslenska landsliðið mætir landsliði Angóla í úrslitaleik um það frá hvorri Keflavíkinni verður róið næstu daga. Sigurliðið heldur norður á bóginn, fetar e.t.v. í einhver fótspor Þórðar kakala Sighvatssonar. Tapliðið fer til Jótlands þangað sem til stóð að flytja Íslendinga í lok átjándu aldar ef eitthvað er að marka heimildir.
- Stafangur virðist hinn notalegasti bær þar sem flestir taka snemma á sig náðir eins og Norðmanna er siður. Heimamenn segja að það sé sama hvert er farið. Ekkert taki lengri tíma en 10 mínútur í bíl. Reyndar stenst þetta nú ekki alveg því það er hið minnsta 15 mínútna akstur frá hóteli mínu að hóteli landsliðsins. Þar hafa nokkrum sinnum verið haldnir opnir fundir með landsliðkonunum undir styrkri stjórn Eyjamannsins jafnlynda Kjartans Vídó Ólafssonar.
- Vissulega er rétt að 10 mínútur er frá hótelinu sem ég dvel á og í keppnishöllina. Eins eru um tíu mínútur frá hóteli í miðbæinn þangað sem ég hef tvisvar farið og snætt í hádeginu með löndum mínum. Aðrar tíu mínútur tekur síðan að aka úr miðbænum og í keppnishöllina.
- Eftir þurra en svala daga fyrst eftir komuna til Stafangurs (voðalega kann ég illa við f-ið í Stafangur) kastaði éljum á laugardaginn svo hér orðið nær alhvítt yfir að líta. Snjórinn er þó ekki til trafala. Þetta telst varla vera snjór enda segja heimamenn að það snjói sjaldan í tíu mínútna bænum.
- Mér hefur loksins tekist að læra af reynslunni eftir öll þessi stórmót að vetri til í Evrópu, hvort heldur í desember eða í janúar, að ekki er um sólarlandaferðir að ræða. Jafnvel heimsmeistaramót í norðanverðri Afríku í janúar fór fram í kulda og miklum trekki.
- Ég lái þar af leiðandi ekki starfsbróður á þessu móti sem kom með hettupeysu sem helsta skjólfatnað í farteskinu til Stavangurs (lítur mikið betur út með vaffi). Hann verður vonandi kominn upp á lagið með að pakka niður úlpu á HM 2051.
- Að þessu sinni tók ég með góðan skjólfatnað. Þess vegna skiptir mig engu máli hvort næsti áfangastaður verður Þrándheimur eða Friðrikshöfn. Ég held áfram að dingla með í úlpunni góðu, með vettlinga á höndum, húfu á sköllóttu höfði, og rifja upp með sjálfum mér liðna sæludaga meðan ég rölti á 40 mínútum frá hótelinu að keppnishöllinni í Stafangri í síðasta sinn.
Ívar Benediktsson, [email protected]
Viðureign Íslands og Angóla hefst klukkan 17 í dag og verður m.a. hægt að fylgjast með henni í textalýsingu á handbolti.is.
- Auglýsing -